Umfjöllun og viðtöl: Valur - Skallagrímur 92-47 | Skyldusigur hjá Val sem framkvæmdu verkið fagmannlega

Árni Jóhannsson skrifar
Hallveig Jónsdóttir skilaði fínu dagsverki. Skoraði 10 stig og gaf fimm stoðsendingar á móti Skallagrím.
Hallveig Jónsdóttir skilaði fínu dagsverki. Skoraði 10 stig og gaf fimm stoðsendingar á móti Skallagrím. Bára Dröfn Kristinsdóttir

Botnlið Subway-deildar kvenna, Skallagrímur, hafði ekki erindi sem erfiði þegar þær sóttu Íslandsmeistara Vals heim í Origo höllina í kvöld. Valskonur lentu fjórum stigum undir í blábyrjun leiksins en eftir að hafa náð vopnum sínum var stigið á bensíngjöfina og keyrt fram úr Skallagrím. Öruggur sigur Vals staðreynd þar sem lokatölur urðu 92-47.

Skallagrímur náði að byrja af krafti og skoruðu sex stig í röð á fyrstu mínútunum og var staðan 2-6 þegar Valskonur náðu að stilla saman strengina sína og salla stigum á gestina. Við það fór sjálfstraust Skallagrímskvenna út um þúfur og Valskonur litu ekki til baka. Fyrsta leikhluta luku þær á 11-2 sprett og héldu áfram að auka mun sinn í öðrum leikhluta sem endaði 25-10 fyrir Val og ekkert í kortunum að Skallagrímur ætti séns í verkefnið. Varnarleikur Valskvenna var ákafur og í hálfleik var Skallagrímur búið að tapa boltanum 16 sinnum og úr því fengur Valskonur 15 stig. Gamla tuggan um að með góðri vörn kemur góður sóknarleikur átti svo sannarlega við í kvöld.

Seinni hálfleikur var af sama meiði. Valskonur virtust þó einbeita sér meira að sóknarleiknum en þær skoruðu 34 stig á móti 17 stigum Skallagríms en þær voru þó að ná að ná að neyða Skallagrím í átta sekúndur yfir miðju og að nota alla skotklukkuna og þegar stelpurnar sem koma inn af bekknum mæta líka mjög ákveðnar til leiks varnarlega þá er lítið hægt að gera hjá liði sem er ekki heilt. 

Fjórði leikhlutinn var því einungis formsatriði og hafði sömu sögu að segja og leikhlutarnir á undan. Valskonur höfðu völdin en Skallagrímur náði þó að sýna að þær geta hlaupið kerfin sín mjög vel þegar sá gállinn er á þeim og er það líklega eitthvað sem hægt er að byggja á. Liðin skiptust síðan á nokkrum körfum og nokkrum töpuðum boltum í lokin en leikurinn endaði 92-47 fyrir heimakonur sem voru vel að sigrinum komnar. Verkefnið var leyst fagmannlega og tvö stigin fara í pokann góða.

Afhverju vann Valur?

Valsliðið er mikið betra körfuboltalið eins og staðan er núna. Þær eru núverandi Íslandsmeistarar, með góðan íslenskan kjarna og erlendan atvinnumann sem er stórkostlegur leikmaður. Skallagrím er vorkunn þar sem það vantar púsl inn í liðið, þær eru ungar og reynslulitlar og bandaríski leikmaður liðsins er að koma upp úr meiðslum sem hefta hennar leik svo um munar. Þá saknar liðið Emblu Kristínardóttur en hún á von á barni sem er gleðiefni og er henni óskað til hamingju en hún leikur ekki meira með liðinu í vetur. Sem er skarð fyrir skildi.

Bestar á vellinum?

Ameryst Alston leiddi sitt lið í kvöld en þetta voru hljóðlát 22 stig og 11 stoðsendingar sem hún skilaði í kvöld. Eins og áður segir þá kom framlag úr mörgum áttum og skiluðu leikmenn sem komu af bekknum 25 stigum fyrir Val í kvöld. 

Stigahæst hjá Skallagrím var Nikola Nedoroščíková sem skoraði 18 stig en hún gerði eins vel og hún gat í að stýra sóknarleiknum sem virkaði á köflum stefnulaus.

Tölfræði sem vakti athygli?

Eins og ég kom að í textalýsingunni þá tapaði Skallagrímur boltanum 16 sinnum í fyrri hálfleik en þær töpuðu ekki nema 11 boltum í þeim síðar. Það er hægt að taka það með sér inn í vinnuna sem framundan er en hún er mikil.

Hvað næst?

Valur fer í Kópavoginn næst og etur kappi við Breiðablik. Það er tækifæri til að sauma tvo sigurleiki saman hjá Valskonum og þar með halda pressu á toppliðin. Sá leikur fer fram 1. desember. Fjórum dögum síðar heldur leit Skallagríms að fyrsta sigrinum áfram en þær fara einnig í Kópavoginn og þar er tækifæri til að ná í sigur sem hefur ekki náðst hingað til í mótinu.

Nebojsa Knezevic: Við verðum bara að æfa og æfa vel

Þjálfari Skallagríms sagði að hann gæti verið ánægður með byrjunina en ekki mikið meira þegar hann var spurður út það hvort það væri eitthvað sem hann gæti tekið með sér út úr leiknum í kvöld.

„Við erum ánægðar með byrjunina og það hvernig ungir leikmenn stóðu sig en svo fylgjum við ekki planinu sem við höfðum sett upp fyrir leik. Við ætluðum að spila góða vörn og reyna að halda stigaskorinu lágu. Þegar þær stíga svo harðar fram varnarlega þá missum við sjálfstraustið einhverra hluta vegna og við töpum boltanum 16 sinnum í fyrri hálfleik. Eftir það var ekki séns að vinna svona gott lið eins og Valur er. Annars þá er ég ánægður með framlag ungra leikmanna. Við vitum það að það verður upp og niður og við því er ekkert að gera enda um ungar stelpur að ræða.“

Nebojsa var spurður út í Emblu Kristínardóttur en hennar var væntanlega sárt saknað.

„Ég get óskað henni til hamingju hérna líka. Hún er ófrísk sem er gleðiefni en hún verður ekki með okkur það sem eftir lifir vetrar.“

Nebojsa var spurður út í það hvað hann sæi hægt væri að gera til að auka sjálfstraustið í liðinu sem líklega er brothætt. Einnig virkar Breanna Destini Bey eins og hana vanti að komast betur inn í hlutina hjá Skallagrím.

„Við verðum bara að æfa og æfa vel. Þannig náum við í sjálfstraustið og verðum keppnishæfari það sem eftir er tímabilsins. Við erum með ungt lið og ekki með marga reynda leikmenn. Viktoría átti góðan leik seinast en var ekki eins góð núna en við búumst við svona upp og niður leikjum enda er hún ekki nema 15 ára. Breanna þarf að æfa meira. Hún kom meidd til okkar og er hún að reyna að komast betur í takt við liðið og bæta sinn leik.“


Tengdar fréttir

Ólafur Jónas: Ánægður með kraftinn

Þjálfari Valskvenna, Ólafur Jónas Sigurðsson, var ánægður með framlag sinna leikmanna í kvöld í leik sem hefði getað verið snúinn upp á það að gera að leikmenn myndu mæta með hugann við eitthvað annað en Skallagrímur er á botni deildarinnar. Hann var sammála því að þetta hafi litið þægilega út og var ánægður með ýmislegt.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira