Það var í raun vitað að Danmörk myndi leggja San Marínó að velli í Kaupmannahöfn í kvöld en spurningin var hversu stór yrði sigurinn. Það tók Danina smá stund að finna taktinn en tvö mörk á þremur mínútum um miðbik fyrri hálfleiks gerðu út um leikinn.
Pierre-Emile Højbjerg kom Danmörku yfir eftir sendingu frá Jonas Wind og Joakim Mæhle tvöfaldaði forystuna eftir sendingu frá Eriksen stuttu síðar. Wind sjálfur skoraði svo þriðja mark Dana skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks eftir sendingu frá Eriksen, staðan 3-0 í hálfleik.
Það var mark dæmt af Dönum áður en Yussuf Poulsen skoraði fjórða markið undir lok leiks eftir sendingu frá Eriksen. Stoðsendingaþrenna á hann og 4-0 sigur staðreynd.
Danir eru í 2. sæti H-riðils með 10 stig, tveimur minna en Finnland sem vann Kasakstan 1-0 í kvöld. Þá vann Slóvenía 4-2 sigur á Norður Írlandi.
Í E-riðli voru það tvö mörk í síðari hálfleik sem tryggðu Póllandi 2-0 sigurá Færeyingum. Lewandowski skoraði fyrra markið úr vítaspyrnu á 73. mínútu og það síðara tíu mínútum síðar.
Sigurinn þýðir að Pólland er með sex stig í 3. sæti en Færeyjar í neðsta sæti með eitt stig. Tékkland er í efsta sæti með átta stig og Albanía í 2. sæti með sjö stig en þjóðirnar gerðu 1-1 jafntefli í kvöld.
Frakkland vann 2-0 sigur á Írlandi með mörkum frá Aurélien Tchouaméni og Marcus Thuram. Holland vann svo 3-0 sigur á Grikklandi. Marten de Roon, Wout Weghorst og Cody Gakpo með mörkin.