Þetta var klárt rautt spjald

Valsmennirnir Kaj Leo i Bartalsstovu, Johannes Vall og Haukur Páll …
Valsmennirnir Kaj Leo i Bartalsstovu, Johannes Vall og Haukur Páll Sigurðsson fagna í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, var kátur eftir 2:0-sigur sinna manna á ÍA í upphafsleik Pepsi Max-deildar karla í fótbolta í kvöld. Eftir markalausan fyrri hálfleik, þar sem Valsmenn spiluðu ekki vel, var allt annað að sjá til liðsins í seinni hálfleik. 

„Hugarfarið var til staðar í fyrri hálfleik. Menn voru að leggja sig fram. Sendingarnar voru hinsvegar ekki nægilega góðar og ákvörðunartakan ekki nægilega góð. Á síðasta þriðjungi voru fyrirgjafir og hlaup ekki að fara saman. Við löguðum það í seinni hálfleik, vorum góðir í honum og unnum sanngjarnan sigur.“

Valsmönnum er spáð Íslandsmeistaratitlinum af flestum spámönnum á meðan ÍA er spáð falli af mörgum. Heimir átti því von á að Skagamenn kæmu af krafti inn í leikinn. „Nánast allir miðlar hafa spáð Skaganum falli og síðast í gær hjá KSÍ. Við vitum að það er mikið stolt fyrir fótboltanum á Akranesi og við vissum að þeir myndu vilja afsanna það strax. Þetta var erfiður leikur og vel tekist á.“

Ísak Snær Þorvaldsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt spjald eftir glæfralega tæklingu á Hauk Pál Sigurðsson. Jóhannes Karl Guðjónsson var ósáttur við dóminn, en Heimir segir hann réttan. „Það var klárt rautt spjald. Hann fór í Hauk Pál. Hann var búinn að taka einn niður á undan og fékk gult spjald og þetta var afleiðing af því.“

Johannes Vall og Christian Köhler léku sinn fyrsta leik með Val í kvöld og Heimir var sáttur við þeirra framlag. „Þeir stóðu sig fínt. Johannes var góður í vinstri bakverðinum og eftir því sem leið á leikinn varð Christian betri og betri. Eins og ég hef sagt áður þá þurfa þeir tíma. Það er ekki langt síðan þeir komu,“ sagði Heimir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert