Ná flugi eftir að útlendingunum var sparkað

Danska rafíþróttaliðið Lyngby Vikings, sem keppir í CS:GO og hefur á köflum átt góðu gengi að fagna, ákvað fyrir áramót að losa sig við alla erlenda leikmenn og einblína á danska leikmenn. Forsvarsmenn liðsins töldu að rekja mætti ýmis vandræði liðsins til tungumálaörðugleika.

Lyngby Vikings sögðu því skilið við leikmennina Dion Derksen „FASHR“, Guy Trachtman „anarkez“ og Hannes Johansson „hns“.

Þeir leikmenn sem voru látnir taka pokann sinn voru ekki lengi að fara á Twitter til að tjá sig um þessar breytingar. Guy Trachtman tístí opinskátt um að margt hafi verið í gangi bakvið tjöldin sem gerði út af við liðsheildina, en FASHR og hns einbeittu sér að dreifa því að þeir væru á tilbúnir að komast í nýtt lið.  

Verðlaunaféð rennur inn

Fyrir um mánuði síðan tilkynnti liðið svo að samningar hefðu náðst við dönsku leikmennina Theis Jensen „J3nsyy“, sem kom frá Quantum Bellator Fire, ásamt Marcus Kjeldsen „maNkz“ og Jakob Schildt „Daffu“ en þeir komu báðir frá Copenhagen Flames. Báður höfðu þeir þó áður spilað með Lyngby Vikings.

Frá því tilkynnt var um nýju liðsmennina hefur liðið átt tuttugu viðureignir. Þar af hafa tólf unnist og átta tapast. En þar með er ekki öll sagan sögð. 

Á sunnudag lauk öðru tímabili Evrópumótsins Funspark ULTI 2021 og endaði liðið í 2. sæti með 6.500 bandaríkjadali í verðlaunafé. Hærri upphæð hefur liðið ekki unnið sér inn síðan í júní á síðasta ári.

Tvær vikur eru auk þess liðnar síðan liðið hafnaði í 19.-20. sæti af 44 liðum í Spring Sweet Spring-mótinu, og fékk í sinn hlut þrjú þúsund dali fyrir vikið.

Áhugavert verður að fylgjast með hvernig nýja liðsheildin tekur við sér þegar fram líða stundir, þar sem liðsmenn geta núna átt í samskiptum á dönskunni góðu. Maður veit aldrei hvað sumarið ber í skauti sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert