Gott að finna samstöðuna

Elvar Ásgeirsson skorar eitt fjögurra marka sinna í gær en …
Elvar Ásgeirsson skorar eitt fjögurra marka sinna í gær en hann var einnig góður í að stimpla niður í hornið á Orra Frey sem skoraði sex mörk. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Elvar Ásgeirsson, landsliðsmaður í handknattleik, sagði það hafa verið erfitt að kyngja naumu tapi gegn Króatíu á EM í Búdapest í gær 22:23 en á morgun bíði mikilvægur leikur sem menn þurfi að vera tilbúnir í. 

„Já. Þetta var gríðarlega svekkjandi. Sérstaklega úr því sem komið var. Við vorum komnir í stöðu til að tryggja okkur sigur. Því miður gekk það ekki hjá okkur og þetta var því súrt.“

Voru menn lengi að festa svefn í gærkvöldi? 

„Ég get bara talað fyrir sjálfan mig. Það tók mig smá tíma. Ég talaði líka aðeins við strákana og menn eru sammála um að það sé ekkert við þessu að gera. Við gröfum þetta bara og höldum áfram. Maður finnur að menn standa saman og andinn hefur verið frábær í þessum leikjum. Þegar þetta fer á versta veg eins og í gær þá er alger samstaða og gott að finna það.“

Elvar lentur í klóm Króata.
Elvar lentur í klóm Króata. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ísland á enn möguleika á að komast í undanúrslit ef Danir vinna Frakka annað kvöld. En þá þarf Ísland að vinna Svartfjallaland á morgun til að ná 6 stigum. Keppnin er því enn spennandi fyrir okkur Íslendinga. 

„Við erum að undirbúa okkur fyrir Svartfjallaland og ætlum að vinna þann leik og ná í tvö stig. Það myndi gefa okkur leik um 5. sætið í mótinu sem væri flott en við sjáum svo hvað gerist. Þetta er ekki allt í okkar höndum lengur en við erum 100% einbeittir á síðasta leikinn í milliriðlinum á morgun og ætlum að vinna,“ sagði Elvar í samtali við mbl.is í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert