Alvarleg staða á Landspítalanum

Ljósmynd/Landspítalinn

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, segir stöðuna alvarlega og býsna þunga. Ríflega 30 sjúklingar á Landspítalanum eru með Covid-19 og af þeim eru fjórir á gjörgæslu, þar af tveir í öndunarvél. 

Staðfest hafa verið 16 smit meðal sjúklinga á Landakoti og tíu starfsmenn eru smitaðir. Alls hafa tíu sjúklingar verið fluttir af Landakoti yfir á Landspítalann í Fossvogi og hluti þeirra er mjög veikur. Enginn þeirra hefur enn þurft að leggjast inn á gjörgæsludeildina úr þeim hópi. 

Þegar mest var í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins í vor lágu 43 á Landspítalanum með Covid-19. Nú eru þeir eins og áður sagði rúmlega 30 talsins.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans.
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans.

Anna Sigrún segir að um 100 starfsmenn Landspítalans þurft að fara í sóttkví vegna hópsmitsins á Landakoti. „Þannig að þetta er fremur snúið úrlausnar en við teljum okkur þó vera að ná utan um málið. Veikustu sjúklingarnir hafa verið fluttir af Landakoti inn í Fossvog þar sem ekki er hægt að veita þeim þann stuðning sem til þarf á Landakoti,“ segir Anna Sigrún.

Við erum að glíma við þessa hópsýkingu sem þarna kom upp sem er mjög alvarlegt og eins er það mjög alvarlegt hversu veikir sumir þeirra eru, segir Anna Sigrún í samtali við mbl.is.

Líkt og fram hefur komið hefur bakvarðarsveit spítalans verið kölluð út til að taka vaktir á Landakoti.

Anna Sigrún segir að yfirstjórn Landspítalans telji að spítalinn muni ráða við þetta aukna álag en í áætlunum hans hafi verið gert ráð fyrir að svona gæti farið. Hafa verði í huga að spítalinn er á eftir nýjum smitum, „viðbrögðin eru yfirleitt um viku á eftir, en við gerðum ekki ráð fyrir að svona hópsýking kæmi upp hjá Landspítalanum“, segir Anna Sigrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert