ÍBV er bikarmeistari

Bikarmeistararnir með verðlaunagripinn.
Bikarmeistararnir með verðlaunagripinn. mbl.is/Óttar

Bikarmeistaratitillinn í handbolta kvenna er Vestmannaeyinga árið 2023. Úrslitaleikur ÍBV og Vals var frábær í Laugardalshöll í dag.

ÍBV byrjaði betur og stemningin var þeirra megin en Valur sýndi styrk sinn þegar leið á hálfleikinn. ÍBV varð fyrir áfalli þegar Marta Wawrzynkowska fékk reisupassann fyrir að hafa farið utan í Theu Imani Sturludóttur þegar Valskonan stökk inn í teiginn. ÍBV efldist við áfallið og þó Valur hafi náð þriggja marka forskoti á tímabili náði ÍBV að minnka muninn í eitt mark áður en fyrri hálfleikur var flautaður af, 14:13 Val í vil.

Valur gekk á lagið í upphafi seinni hálfleiks en svo komu Vestmannaeyingar til baka, jöfnuðu metin þegar um tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Þær komust svo yfir í kjölfarið og bættu svo í forskotið. Valur átti engin svör við leik Hrafnhildar Hönnu Þrastardóttur sem var ekkert minna en stórkostleg í leiknum.

Það má segja að ÍBV hafi viljað þetta meira í dag. Eyjakonur byrjuðu leikinn betur og virtust hafa eflst við áfallið þegar Marta fékk rauða spjaldið um miðjan fyrri hálfleikinn. Fyllilega verðskuldaður sigur hjá ÍBV. Hrafnhildur Hanna var ótrúleg í dag og Birna Berg studdi vel við hana í markaskoruninni. Ólöf Maren kom sterk inn í mark Eyjakvenna þegar Mörtu var vikið af leikvelli og varði vel.

Eyjakonu fóru að lokum með tveggja marka sigur, 31:29, og nú munu þær sigla með bikarinn til Eyja.

Til hamingju ÍBV!

Mbl.is var í Laugardalshöll og færði ykkur allt það helsta í beinni textalýsingu.

Dómarinn gefur Mörtu Wawrzynkowsku rautt spjald.
Dómarinn gefur Mörtu Wawrzynkowsku rautt spjald. mbl.is/Óttar
ÍBV 31:29 Valur opna loka
60. mín. Elín Rósa Magnúsdóttir (Valur) skoraði mark Síðasta markið í leiknum en ÍBV er bikarmeistari í handbolta kvenna árið 2023!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert