Fótbolti

Leiknir fær tvo Dani | Brynjar Hlöðversson framlengir

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Brynjar Hlöðversson verður áfram í herbúðum Leiknis.
Brynjar Hlöðversson verður áfram í herbúðum Leiknis. Vísir/Hulda Margrét

Leiknir R. samdi í dag við þrjá leikmenn fyrir komandi átök í efstu deild karla í fótbolta næsta sumar.

Tveir þeirra sem skrifuðu undir samning í dag koma nýjir inn og einn þeirra var að endurnýja samning sinn.

Það er hann Brynjar Hlöðversson sem skrifaði undir nýjan samning við Leiknismenn en þessi reynslumikli varnarmaður skriafði undir nýjan tveggja ára samning.

Hinir tveir sem skrifuðu undir samninga hjá Leiknismönnum koma úr færeysku deildinni. Annars vegar er það 22 ára danskur kantmaður að nafni Mikkel Jakobsen sem lék 26 leiki í færeysku Betri-deildinni á síðasta tímabili og skoraði þar fimm mörk og lagði upp önnur tíu.

Hins vegar er það danski framherjinn Mikkel Dahl sem kemur frá HB Þórshöfn. Dahl setti markamet í færeysku Betri-deildinni á síðasta tímabili þegar hann skoraði 27 mörk í 25 leikjum. Ekki nóg með það heldur lagði hann einnig upp átta í viðbót.

Samningar Dahl og Jakobsen eru einnig til tveggja ára, líkt og sá sem Brynjar undirritaði í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×