Árásarmaðurinn í Kongsberg nafngreindur

Lögreglumaður að störfum við verslun í Kongsberg þar sem árásin …
Lögreglumaður að störfum við verslun í Kongsberg þar sem árásin var gerð. AFP

Norskir fjölmiðlar hafa greint frá nafni mannsins sem myrti fimm manns í bænum Kongsberg í Noregi í gærkvöldi. Árásarmaðurinn, sem er í haldi lögreglu, heitir Espen Andersen Bråthen  og hefur hann áður komið við sögu lögreglu. 

Bråthen er sagður hafa snúist til öfgahyggju og hefur hann við yfirheyrslu hjá lögreglu játað sök að sögn lögreglu. 

Lögreglumenn að störfum í Kongsberg.
Lögreglumenn að störfum í Kongsberg. AFP

Hann hefur verið úrskurðaður gæsluvarðhald á meðan rannsókn málsins stendur yfir. 

Saksóknari segir að maðurinn, sem er 37 ára gamall Dani, muni gangast undir geðrannsókn, en fyrst verður gerð bráðabirgðarannsókn í dag. 

Hótaði að myrða nákominn ættingja

Fram kemur á vef norska ríkisútvarpsins, að norskur dómstóll hafi í fyrra úrskurðað Bråthen í sex mánaða nálgunarbann gagnvart tveimur nákomnum ættingjum sínum. Hann meðal annars hótaði að myrða annan þeirra. 

Alls létust fjórar konur og einn karlmaður í árásinni í gær sem eru á milli fimmtugs og sjötugs. Þau hafa ekki verið nafngreind. Tveir særðust. Þetta er mannskæðasta árásin sem hefur verið gerð í landinu í áratug. Lögreglan rannsakar málið sem hryðjuverk.

Víða hefur norski fáninn verið dreginn í hálfa stöng til …
Víða hefur norski fáninn verið dreginn í hálfa stöng til að minnast þeirra sem létust í árásinni. AFP

Norska öryggislögreglan PST sagði í yfirlýsingu í dag að atburðirnir í Kongsberg litu út fyrir að vera hryðjuverkaárás, en tekið er fram að umfangsmikil rannsókn væri nú hafin. 

Ole Bredrup Sæverud, talsmaður lögreglunnar, segir að Bråthen hafi snúist til öfga-íslamstrúar árið 2019. Lögreglan telur víst að hann hafi verið einn á ferð þegar hann gerði til atlögu með boga og örvar í gærkvöldi. 

Tók rúman hálftíma að handsama manninn

Um 25.000 manns búa í Kongsberg sem er vestur af höfuðborginni Ósló. 

Norskir fjölmiðlar hafa spurt lögregluna hvers vegna það tók hana rúman hálftíma að handtaka árásarmanninn, eftir að fyrstu tilkynningar bárust um árásina. 

AFP

Fyrst tilkynning barst kl. 18:13 að staðartíma, eða kl. 16:13 að íslenskum tíma. Hann var síðan handtekinn kl. 18:47 að norskum tíma. 

Að sögn lögreglu skaut Bråthen örvum að lögreglu sem svöruðu með viðvörunarskotum. 

Heyrðu öskur, læti og þyrlu á sveimi

Thomas Nilsen, sem býr í Kongsberg, var heima hjá sér þegar hann heyrði öskur og læti. „Ég hélt að ég væri staddur í Kabúl [í Afganistan],“ sagði hann í samtali við fréttamenn AFP. 

„Ég heyrði börn öskra, gelt og svo þyrlu á sveimi yfir húsinu mínu,“ sagði íbúinn Terje Kristiansen í samtali við AFP. „Ég gat ekkert sofið eftir þetta.“

Lögreglan segir að Bråthen hafi notað önnur vopn auk bogans, en ekki hafa verið veittar frekari upplýsingar um hvers konar vopn er að ræða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert