Hættustigi aflýst á Patreksfirði

Hér má sjá ummerki um flóðið á Patreksfirði í morgun.
Hér má sjá ummerki um flóðið á Patreksfirði í morgun. Mbl.is/Guðlaugur J. Albertsson

Hættustigi almannavarna hefur verið aflýst á Patreksfirði en krapaflóð féll þar í morgun eins og frá hefur verið greint.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá almannavörnum. Þar segir: 

„Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Vestfjörðum aflýsir hættustigi almannavarna vegna krapaflóðs sem féll á Patreksfirði fyrr í dag. Hættustigið var sett á þar sem verið var að meta stöðu mála og ekki var hægt að útiloka frekari flóð. Áfram verður svæðið vaktað en búið er að aflétta lokun á svæðinu. Engin hús eða manneskjur urðu fyrir flóðinu en það féll niður sama farveg og flóðið árið 1983, en var mun minna í umfangi samhæfingarstöðin í Skógarhlíð sem var virkjuð vegna flóðsins, hefur nú lokið störfum.

Verðurspár gera ráð fyrir að það dragi úr úrkomu upp úr hádegi.

Vert er að minna á hjálparsíma Rauða krossins 1717 sem er opinn allan sólarhringinn. Þangað er hægt að leita ef fólk finnur fyrir vanlíðan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert