Ökumaður í banaslysi undir áhrifum sljóvgandi lyfja

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur samgönguráðuneytið til að flýta eins og kostur er vinnu við ný úrræði gegn ölvunar- og lyfjaakstri ökumanna til þess að takast betur á við þann hóp ökumanna sem ítrekað aka undir áhrifum áfengis, lyfja eða fíkniefna.

Þetta kemur fram í skýrslu um umferðarslys sem varð á Reykjanesbraut við Dalveg á síðasta ári þegar farþegi í bíl lést en ökumaður bílsins var undir áhrifum lyfja, réttindalaus og hafði ítrekað gerst brotlegur við umferðarlögin.

Þrír bílar lentu saman

Rannsóknarnefndin vísar í skýrslu sem gerð var um banaslys sem varð á Öxnadalsheiði í júní 2016 en þar birti nefndin fyrrnefnda tillögu í öryggisátt. Niðurstöður nefndar sem skipuð var í kjölfar tillögunnar hafi enn ekki verið birtar.

Í slysinu á Dalvegi lentu þrír bílar saman og einn þeirra rakst utan í ljósastaur. Farþegi í aftursæti VW-bíls hlaut banvæna höfuðáverka þegar hægri hlið bílsins rakst harkalega utan í ljósastaurinn. Ökumaður bílsins hlaut litla áverka en farþegi í framsæti slasaðist alvarlega. Ökumenn hinna bílanna tveggja sakaði ekki.

Ekki með ökuréttindi

Áfengis- og lyfjarannsókn á ökumanni VW-bílsins leiddi í ljós að hann var undir áhrifum fíkniefna og sljóvgandi lyfja. Þá var hann ekki með ökuréttindi þegar slysið varð og hafði ítrekað gerst brotlegur við umferðarlög, m.a. ekið ítrekað undir áhrifum ávana- og fíkniefna og án ökuréttinda.

Í skýrslu nefndarinnar segir að akstur undir áhrifum áfengis, vímuefna og lyfja sé verulegt vandamál. Af sjö banaslysum sem urðu á Íslandi árið 2020 voru ökumenn í þremur slysum undir slíkum áhrifum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert