Erlent

Minnst tuttugu látin í á­rásum Ísraels­hers á Gasa

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sprenging á Gasa í kjölfar loftárása Ísraelshers á svæðið.
Sprenging á Gasa í kjölfar loftárása Ísraelshers á svæðið. AP/Adel Hana

Ísraelsher hefur gert loftárásir á Gasa-svæðið, þar sem minnst 20 hafa látist. Börn eru á meðal látinna.

Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið og hefur tölu látinna eftir heilbrigðisyfirvöldum á Gasa. Árásirnar eru sagðar svar ísraelskra stjórnvalda við loftskeytum sem skotið var frá Gasa í átt að Jerúsalem. Ísraelsher skaut einhver skeytanna niður, en engin þeirra eru talin hafa náð að valda miklu tjóni.

Harka hefur færst í átök milli Ísraels og Palestínu síðustu daga vegna áforma ísraelskra stjórnvalda um að hrekja palestínskt fólk burt úr hverfi í austurhluta Jerúsalem, þar sem landtökufólk hefur gert sig heimakomið.

Átökin fóru stigvaxandi í dag, þar sem Ísrael fagnaði í dag svokölluðum „Jerúsalemdegi,“ þar sem þess er minnst þegar Ísrael náði stjórn yfir austurhluta Jerúsalem í sex daga stríðinu árið 1967.

Fyrr í dag mótmæltu Palestínumenn við al-Aqsa moskuna á Musterishæðinni í Jerúsalem. Mótmælin sneru að áðurnefndum fyrirætlunum Ísraela um að bola fólki úr hluta borgarinnar. Yfir þrjú hundruð mótmælendur særðust í átökum við ísraelsku lögregluna.

Ísrael heitir hefndum

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir að með loftskeytaárásunum hafi Hamas-samtökin, sem fara með vald á Gasa-svæðinu, farið „yfir rauða línu“ og búast megi við því að Ísrael svari með „miklum mætti.“

Þá hefur BBC eftir háttsettum embættismanni innan Ísraelshers að minnst þrír vígamenn Hamas hafi dáið í loftárásunum.

„Við erum byrjuð, ég endurtek, byrjuð, að ráðast gegn hernaðarlegum skotmörkum á Gasa.“

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur kallað eftir því að stríðandi fylkingar haldi sig til hlés. Hann beindi orðum sínum þó sérstaklega til Hamas-liða og sagði þá verða að hætta loftskeytaárásum sínum tafarlaust.


Tengdar fréttir

Fjölda eldflauga skotið að Ísrael

Tugum eldflauga hefur verið skotið frá Gasa að Ísrael og Jerúsalem í dag. Forsvarsmenn Hamas höfðu gefið yfirvöldum Ísraels frest til klukkan þrjú í dag, að íslenskum tíma, til að yfirgefa al-Aqsa moskuna á musterishæð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×