Efast um getu Landlæknis

Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjápar.
Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjápar. Ljósmynd/mbl.is

Stjórn samtakanna Geðhjálpar veltir því upp hvort eftirliti Landlæknis með starfsemi heilbrigðisstofnana sé ábótavant þar sem ekki var brugðist við ábendingum frá Geðhjálp um málefni öryggis- og réttargeðdeilda Landspítalans með fullnægjandi hætti að mati stjórnarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum. 

„Þetta er ekki spurning um viljaleysi að hálfu Landlæknis heldur veltum við því upp hvort embættið hafi getu með tilliti til mannafla til að sinna virku eftirliti með geðheilbrigðismálum,“ segir Grímur Altason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, í samtali við mbl.is. 

Forsaga málsins er sú að í nóvember leituðu fimm þáverandi og fyrrverandi starfsmenn öryggis- og réttargeðdeildar Landspítalans á fund Geðhjálpar. Þeir sögðu frá alvarlegum atvikum í starfsemi deildanna gagnvart notendum þjónustunnar, sem að mati lögfræðings Geðhjálpar o.fl. kunna varða við hegningarlög.

Á annan tug starfsmanna

„Við gerðum greinagerð upp úr því sem þau sögðu, skriflegar yfirlýsingar þessara starfsmanna. Við töluðum strax við Landlækni og Landspítalann og höfum verið í samskiptum við þetta fólk síðan.

Það sem gerist er síðan að það koma fleiri starfsmenn til okkar, á annan tug starfsmanna og svo notendur og aðstandendur. Síðar leita þrjár konur til fjölmiðla, þær tilheyra í rauninni öðrum hópi. 

Þá kemur þetta viðbragð Landlæknis, og það er það sem við gagnrýnum,“ segir Grímur. 

Viðbragðið sem hann vísar í er svar upplýsingafulltrúa embættis Landlæknis við spurningu blaðamanns:  

„Þetta er nátt­úru­lega svo­lítið sér­stakt af því að upp­haf­lega er málið sett fram í grein­ar­gerð og und­ir nafn­leynd og síðan stíga kon­ur fram sem að lýsa sinni upp­lif­un. Þá breyt­ist dæmið, þá vilj­um við fá frek­ari upp­lýs­ing­ar frá þeim.“

Grímur segir ekkert sérstakt við það að sögurnar hafi komið undir nafnleynd. „Þegar fólk vill koma fram með ábendingar um eitthvað alvarlegt er eðlilegt að óska eftir nafnleynd. Þá þarf eftirlitsaðilinn að sinna sínu, sem hann gerði ekki í þessu tilviki með fullnægjandi hætti að okkar mati,“ segir Grímur. 

Vilja víðtækar úttektir

Samtökin hafa óskað eftir að óháð úttekt á starfsemi allra deilda geðsviðs Landsspítalans verði gerð ásamt sérstakri úttekt á því hvernig starfsemi hefur verið háttað á öryggis- og réttargeðdeildum spítalans með hliðsjón af þeim alvarlegu ásökunum sem fjöldi starfsmanna, aðstandenda og notenda hefur nú komið fram með.

Einnig er farið fram á að farið verði yfir eftirlitshlutverk Landlæknisembættisins og lagt mat á það hve mikið vantar upp á til að embættið geti sinnt því með fullnægjandi hætti og hvort heppilegra væri að önnur hlutlausari og ótengdari stofnun/aðili sinnti þessu eftirliti.

Að lokum er farið fram á að gerð verði heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Stjórn Geðhjálpar leggur síðan til að Ísland verði gert að þvingunarlausu landi til tilraunar í þrjú ár. Benda þau á hvatningu sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna til Evrópuráðsins frá því í maí þar sem fram kemur að nauðungarvistanir á heilbrigðisstofnunum og þvingandi meðferðir hafa í för með sér skaðlegar afleiðingar fyrir notandann, svo sem sársauka, áfall, niðurlægingu, skömm, stimplun og ótta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert