Væri draumur að komast í Meistaradeildina

Kristján Örn Kristjánsson á landsliðsæfingu á dögunum.
Kristján Örn Kristjánsson á landsliðsæfingu á dögunum. Unnur Karen

Franska handknattleiksliðinu Aix, sem Kristján Örn Kristjánsson leikur með, hefur tekist að fylgja eftir góðum árangri síðasta tímabils í upphafi þessa tímabils.

Aix hefur unnið sjö leiki af fyrstu tíu í efstu deild í Frakklandi, gert eitt jafntefli en tapað tveimur leikjum. Á föstudagskvöldið var Kristján markahæstur með átta mörk þegar liðið vann Cesson Rennes 25:24 eftir spennandi leik.

„Byrjunin á tímabilinu hefur verið mjög góð. Við sitjum í 3. sæti sem er bara mjög fínt. Á síðasta tímabili náðum við fjórða sæti sem var besti árangur liðsins til þessa. Við erum því í góðri stöðu um þessar mundir,“ sagði Kristján Örn þegar Morgunblaðið spjallaði við hann á dögunum. Segir hann árangur liðsins síðasta vetur hafa komið talsvert á óvart.

„Ég myndi segja að við höfum komið töluvert á óvart. Liðið skipti um þjálfara og leikskipulagið breyttist bæði vegna hans en einnig vegna nýrra leikmanna. Mér er sagt að áður en ég kom til liðsins hafi leikstíll liðsins verið hægur. Að því leytinu til komum við því sannarlega á óvart á síðasta tímabili. Þetta tímabilið höfum við stigið fleiri skref fram á við.“

Mjög sáttur við sitt hlutverk

Kristján Örn vakti snemma athygli með yngri landsliðum Íslands og lék þar með öflugum leikmönnum sem eins og hann hafa skilað sér upp í A-landsliðið. Má þar nefna Ómar Inga Magnússon, Elvar Örn Jónsson, Arnar Frey Arnarsson og Ými Örn Gíslason sem dæmi. Kristján Örn raðaði inn mörkum fyrir Fjölni þegar liðið var í efstu deild og fór þaðan til ÍBV.

Fór hann utan í fyrra og má segja að Kristján hafi valið vel þegar hann hóf atvinnumannaferilinn. Hann fær mikið að spila hjá liði sem gengur vel í sterkri deild. „Ég er mjög sáttur við mitt hlutverk í liðinu. Ég fæ að spila eins mikið og ég get og hef þar af leiðandi ekki yfir neinu að kvarta.“

Nánar er rætt við Kristján Örn í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert