Ætlaði bara að smella honum í netið

Anna Rakel Pétursdóttir með boltann í leiknum í kvöld.
Anna Rakel Pétursdóttir með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög ánægð og við erum sáttar við þrjú stig,“ sagði Anna Rakel Pétursdóttir, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 2:0-heimasigur liðsins gegn ÍBV í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

„Spilamennskan var fín á köflum. Við héldum vel í boltann, komum okkur í góðar stöður og við erum sáttar. Þetta var sanngjarn sigur,“ sagði Anna.

Hún skoraði glæsilegt mark er hún kom Val í 2:0 á 76. mínútu með skoti utan teigs í skeytin fjær. „Ég var ekki að hugsa mikið. Ég ætlaði bara að smella honum í netið. Þetta er ekkert flókið,“ sagði hún hlæjandi.

Sigurinn var kærkominn fyrir Val, eftir tvo leiki í röð án sigurs og tap gegn Stjörnunni í síðustu umferð. „Við höfum fundað vel síðustu daga. Við þurftum að rífa okkur upp eftir síðustu tvo leiki og við ætlum að halda því áfram.“

Valsliðið er nokkuð breytt frá síðustu leiktíð, er það varð Íslandsmeistari. Anna er nokkuð ánægð með byrjunina á mótinu og ánægð með innkomu yngri leikmanna.

„Það hefur verið mikil umræða um að við höfum misst marga pósta, en það koma fleiri ungar inn og þær eru að standa sig mjög. Þetta er ágæt byrjun. Þetta er eitt tap og eitt jafntefli, en ég held deildin í ár sé sterkari en hún hefur verið undanfarin ár. Það er gaman að því,“ sagði Anna Rakel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert