Fjölmiðlanefnd vill skrá hlaðvörp

Varla er nokkur maður með mönnum í dag nema halda …
Varla er nokkur maður með mönnum í dag nema halda úti hlaðvarpi, helst tveimur. AFP

Umsjónarmenn að minnsta kosti þriggja íslenskra hlaðvarpsþátta hafa fengið bréf frá fjölmiðlanefnd þar sem óskað er eftir því að hlaðvörpin skrái sig formlega sem fjölmiðla. Þetta herma heimildir Kjarnans.

Kveikjan að rannsókninni munu vera ábendingar um auglýsingar frá veðmálafyrirtækinu Coolbet í að minnsta kosti tveimur hlaðvarpanna þriggja, en starfsemi veðmálafyrirtækja og auglýsingar þeirra eru ólöglegar á Íslandi.

Ekkert hlaðvarp er sem stendur á lista fjölmiðlanefndar yfir starfandi fjölmiðla.

Samkvæmt svari fjölmiðlanefndar við fyrirspurn miðilsins er til skoðunar að senda slíka beiðni á fleiri hlaðvarpsstjórnendur, en nefndin hefur að undanförnu skoðað íslenskan hlaðvarpsmarkað.

Mbl.is hefur sent fjölmiðlanefnd fyrirspurn um hvaða hlaðvörp hún telji fjölmiðla.

Ekki öll hlaðvörp fjölmiðlar, en hver?

Núgildandi lög um fjölmiðla voru sett árið 2011, áður en hlaðvörp höfðu rutt sér til rúms hér á landi. Þar er fjölmiðill skilgreindur sem hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn. Eru enn fremur tekin dæmi um að til fjölmiðla teljist meðal annars „dagblöð og tímarit, ásamt fylgiritum þeirra, netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar“.

Þótt lögin hafi ekki verið skrifuð með hlaðvörp í huga ætti þó að vera ljóst að þau geti fallið undir skilgreiningu hljóð- og myndmiðla. Spurningin er þó hver umsvif hlaðvarps þurfa að vera til að teljast fjölmiðill.

Í svari lögfræðings fjölmiðlanefndar við fyrirspurn Kjarnans segir að við mat á því hvort hlaðvarp teljist fjölmiðill sé horft til skilgreininga laga um fjölmiðla ásamt lögskýringargögnum og til 2. gr. starfsreglna fjölmiðlanefndar nr. 1363.

Í þeim segir meðal annars að það sé „skýr vísbending“ um að miðlun efnis falli undir hugtakið fjölmiðill þegar fjölmiðlaveitan hafi af því atvinnu að miðla fjölmiðlaefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert