Fimmti yngsti landsliðsmaður Íslands

Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með 21-árs landsliðinu í haust.
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með 21-árs landsliðinu í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísak Bergmann Jóhannesson, Skagamaðurinn sem leikur með Norrköping í Svíþjóð, varð fimmti yngsti A-landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu í karlaflokki frá upphafi þegar hann kom inn á sem varamaður undir lok leiksins gegn Englandi á Wembley.

Ísak fæddist 23. mars árið 2003 og er því 17 ára og 240 daga gamall. Hann fór fram úr öðrum Skagamanni sem átti aldursmetið í 25 ár. Ríkharður Jónsson lék annan landsleik Íslands, gegn Noregi, árið 1947 þegar hann var 17 ára og 254 daga gamall.

Met Ríkharðs stóð til ársins 1964 þegar Eyleifur Hafsteinsson frá Akranesi lék með A-landsliðinu gegn Skotlandi á Laugardalsvellinum, 17 ára og 57 daga gamall.

Met Eyleifs stóð til ársins 1972 þegar Ásgeir Sigurvinsson spilaði gegn Danmörku á Laugardalsvellinum. Ásgeir bætti met Eyleifs um einn dag því hann var 17 ára og 56 daga gamall.

Ásgeir átti metið í 11 ár en þá kom enn Skagamaður til sögunnar. Sigurður Jónsson kom inn á í leik gegn Möltu í júní árið 1983, aðeins 16 ára og 251 dags gamall.

Sigurður Jónsson kemur inn á fyrir Pétur Pétursson í landsleik …
Sigurður Jónsson kemur inn á fyrir Pétur Pétursson í landsleik gegn Möltu á Laugardalsvelli og setur metið sem enn stendur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sigurður á enn metið og það hefur nú staðið í 37 ár. Sá sem hefur komist næst því er Eiður Smári Guðjohnsen en hann lék 17 ára og 221 dags gamall gegn Eistlandi árið 1996.

Eiður er því sá fjórði yngsti, á eftir Sigurði, Ásgeiri og Eyleifi, en Ísak Bergmann er nú sem sagt búinn að ná fimmta sætinu á þessum lista og hefur ýtt Ríkharði Jónssyni niður í sjötta sæti.

Aðrir sem hafa náð að spila A-landsleik karla áður en þeir urðu 18 ára eru Arnór Guðjohnsen (1979), Jóhann Berg Guðmundsson (2008), Friðrik Friðriksson (1982) og Þórir Jónsson (1970).

Þessi frétt hefur verið uppfærð en í fyrstu útgáfu hennar var sagt að Ísak væri sá fjórði yngsti í sögunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert