Macron ræddi við forsætisráðherra Ísraels

Emmanuel Macron og Benjamin Netanyahu ræddu saman í síma í …
Emmanuel Macron og Benjamin Netanyahu ræddu saman í síma í dag. Samsett mynd

Emmanuel Macron Frakklandsforseti kallaði í gær eftir yfirvegun vegna átaka milli Ísraela og Palestínumanna.

Í símtali við Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, minntist Macron á nauðsyn þess að forðast ráðstafanir sem líklegar væru til að kynda undir ofbeldið.

Lýsti hann því yfir að hann væri reiðubúinn til að leggja sitt af mörkum svo að viðræður milli Ísraela og Palestínumanna hefjist að nýju.

Fordæmir skotárásina í Jerúsalem

Þá ítrekaði Macron fordæmingu sína á skotárásinni sem átti sér stað fyrir utan samkunduhús í Jerúsalem á föstudag sem kostaði sjö mannslíf.

Í annarri árás um helgina skaut þrettán ára palestínskur drengur tvo í Jerúsalem.

Þá ræddi Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, símleiðis við utanríkisráðherra Ísraels og Palestínu í dag og hvatti til stillingar á Vesturbakkanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert