Albert skoraði og lagði upp í mikilvægum sigri

Albert Guðmundsson lék fantavel fyrir AZ Alkmaar í dag.
Albert Guðmundsson lék fantavel fyrir AZ Alkmaar í dag. AFP

Albert Guðmundsson var á skotskónum og lagði upp mark fyrir AZ Alkmaar þegar liðið vann mikilvægan 3:1 sigur gegn RKC Waalwijk í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Eftir að Waalwijk hafði tekið forystuna á 17. mínútu jafnaði Albert metin á 28. mínútu eftir undirbúning Calvin Stengs.

Staðan var 1:1 í hálfleik en Myron Boadu kom Alkmaar yfir á 63. mínútu. Skömmu síðar fékk Sylla Sow beint rautt spjald í liði Waalwijk.

Eftirleikurinn var því þægilegur fyrir Alkmaar og innsiglaði Stengs sigur liðsins með þriðja marki þess á 82. mínútu, eftir sendingu frá Albert.

Með sigrinum jafnaði Alkmaar PSV Eindhoven að stigum en er þó áfram í þriðja sæti hollensku úrvalsdeildarinnar. Annað sætið gefur þátttökurétt í undankeppni Meistaradeildar Evrópu.

PSV á þó leik til góða á Alkmaar og getur því aftur náð þriggja stiga forystu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert