Handbolti

Patrekur: Hef engar áhyggjur af markvörslunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir takmarkaða markvörslu Stjörnunnar gegn ÍBV hefur Patrekur Jóhannesson, þjálfari Garðbæinga, ekki áhyggjur.
Þrátt fyrir takmarkaða markvörslu Stjörnunnar gegn ÍBV hefur Patrekur Jóhannesson, þjálfari Garðbæinga, ekki áhyggjur. vísir/Elín

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var mun sáttari með fyrri hálfleikinn en þann seinni gegn ÍBV í kvöld. Eyjamenn unnu leik liðanna í Mýrinni með fjögurra marka mun, 28-32.

„Við byrjuðum í 5-1 vörn með Hrannar [Braga Eyjólfsson] fyrir framan. Við höfðum ekki mikinn tíma til að æfa það en mér fannst það ganga mjög vel,“ sagði Patrekur í samtali við Vísi eftir leik.

„Í seinni hálfleik duttum við niður á hælana og það vantaði grunnatriðin sem þurfa að vera til staðar í handbolta. Að hreyfa sig aðeins meira og sýna útgeislun. Við vorum alltof of flatir í seinni hálfleik. Svo lentum við líka í vandræðum í sókninni. Hún var ekki nógu góð og við fleygðum boltanum í hendurnar á þeim.“

ÍBV skoraði tólf mörk eftir hraðaupphlaup eða í tómt mark Stjörnunnar í leiknum. Stjörnumenn spiluðu með sjö sóknarmenn á kafla í seinni hálfleik en án mikil árangurs.

„Það gekk ekkert upp. Við komust ekki í gegn og þá þarf maður að prófa. Auðvitað er þetta áhætta en maður getur heldur ekki horft á liðið skorað tvö mörk á tíu mínútum eins og þetta var hjá okkur. Ég stend og fell með því. Í nokkrum leikjum í vetur höfum við spilað sjö gegn sex mjög vel en það gekk ekki upp í dag,“ sagði Patrekur. „Þetta var jafn leikur en Eyjamennirnir voru sterkari í seinni hálfleik.“

Markvarsla Stjörnunnar var ekki uppi á marga fiska í kvöld eins og svo oft áður í vetur. Þrátt fyrir það hefur Patrekur ekki áhyggjur af henni.

„Nei, mér fannst Arnór [Freyr Stefánsson] fínn í fyrri hálfleik þegar vörnin vann vel. Í seinni hálfleik fékk ÍBV opin færi. Ég hef engar áhyggjur af markvörslunni. Ég er með þrjá virkilega góða markverði,“ sagði Patrekur að lokum.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×