Reynsluboltinn spilar brátt sinn fyrsta leik

Sergio Ramos hefur mátt dúsa uppi í stúku vegna meiðsla …
Sergio Ramos hefur mátt dúsa uppi í stúku vegna meiðsla allt tímabilið til þessa. AFP

Spænski miðvörðurinn Sergio Ramos hefur verið að glíma við meiðsli allt frá því að hann gekk til liðs við franska stórliðið París Saint-Germain í sumar og hefur því enn ekki spilað sinn fyrsta leik fyrir það.

Franska dagblaðið Le Parisien greinir hins vegar frá því að nú styttist í að hann spili sinn fyrsta leik og gæti hann jafnvel gert það næstkomandi föstudag þegar PSG mætir Angers í frönsku 1. deildinni.

Ramos er 35 ára gamall og batt enda á 16 ára dvöl sína hjá spænska stórveldinu Real Madríd í sumar eftir að hafa unnið allt sem hægt er að vinna þar.

Ramos meiddist á kálfa í síðasta mánuði en endurhæfing hans hefur gengið vel að undanförnu og getur Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri PSG, því að öllum líkindum nýtt sér krafta hans á föstudag,

Auk þess greinir Le Parisien frá því að landi Ramos, vinstri bakvörðurinn Juan Bernat, gæti einnig snúið aftur í leiknum gegn Angers eftir að hafa verið frá vegna alvarlegra hnémeiðsla í meira en ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert