Rúður brotnar í bíl­um Hóp­bíla

Rúður bíla í geymslu Hópbíla voru brotnar. Mynd úr safni.
Rúður bíla í geymslu Hópbíla voru brotnar. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

Skemmdarverk var unnið á bílum Hópbíla sem sátu í geymslu fyrirtækisins í Hafnarfirði. Lögreglan segir tjónið talið hlaupa á milljónum króna. Framkvæmdastjóri Hópbíla segir málið hundfúlt.

„Tilkynnt um eignaspjöll á rútum. Búið að brjóta fjölda rúða og tjónið talið hlaupa á milljónum króna. Málið í rannsókn," segir um málið í dagbók lögreglu. 

„Þetta virðist hafa átt sér stað núna á síðustu einum til tveimur sólarhringum, það er eiginlega það eina sem ég veit. Þetta voru bílar sem að voru þarna á geymslusvæði á okkar vegum, það hafa verið rúður brotnar, þetta aðallega snýst um eitthvað svoleiðis á einhverjum gömlum bílum sem voru í rauninni bara númerslausir og til geymslu. Ég er bara ekki kominn með alla heildarmyndina á þetta satt best að segja,“ segir Hjörvar Sæberg Högnason, framkvæmdastjóri Hópbíla í samtali við mbl.is.

Ég var hundfúll að heyra þetta“

„Ég veit að það var kallað til lögreglu í morgun en ég er ekki búinn að fá nánari skýrslu um sjálfur eða upplýsingar um málið. [...] Ég veit ekki hvort það var eitthvað meira en rúðubrot en það var alla veganna talið að það hafi verið brotnar rúður á nokkrum bílum sem voru þarna í geymslu hjá okkur,“ segir Hjörvar en geymslan sé á afgirtu og læstu geymslusvæði.

„Þetta voru leiðinlegar fréttir að fá í morgun, ég var hundfúll að heyra þetta“.

Hjörvar segist enn hafa fremur óljósa mynd af málinu en hann gerir ráð fyrir að fyrirtækið viti meira um umfang tjónsins á morgun.

„Sumir hlutir fá bara ekki að vera til friðs“

„ [...] Þetta virðist líta út fyrir að þarna hafi einhver komist inn fyrir girðingu og farið að brjóta rúður í einhverjum bílum sem standa þar og eru í rauninni ekki að gera neinum mein annað en að vera bara til geymslu. Það er nú bara þannig því miður, það bara virðist vera einhver skemmdarfýsn sem ræður þarna einhverri för,“ segir Hjörvar en hann viti ekki enn um hve marga bíla ræðir.

„Því miður þá gerast svona hlutir af og til. Sumir hlutir fá bara ekki að vera til friðs þar sem þeir eru geymdir,“ segir Hjörvar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert