Sáttur og auðmjúkur

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, kveðst ákaflega sáttur og auðmjúkur eftir að niðurstöður í formannskjöri verkalýðsfélagsins voru kunngerðar. Hann hafði betur í formannsslagnum með 6.842 atkvæði gegn 4.732 atkvæðum Elvu Hrannar Hjartardóttur mótframbjóðandans.

„Ég er bara ótrúlega ánægður með niðurstöðurnar, ánægður með kosningabaráttuna sem var málefnaleg og heiðarleg og skilaði okkur þessu. Þetta er í annað skiptið sem að ég næ kjöri og eini formaðurinn sem að hefur staðið af sér mótframboð þannig að ég hlýt að vera stoltur með niðurstöðurnar. Þetta er stórt og mikið félag með mikla breidd og ólíka samsetningu og það er mikil áskorun að gera öllum til geðs.“

Reiknaði með þessum niðurstöðum

11.996 félagsmenn VR greiddu atkvæði og var kosningaþátttaka um 30,6%. Ragnar hlaut alls 57,03% atkvæða. Ragnar segir niðurstöðurnar ekki langt frá því sem hann hafði gert sér í hugarlund.

„Ég reiknaði með svona – björtustu spár sextíu-fjörtíu. Mér sýnist þetta vera eins nálægt því og hægt er.“

Hann segir næstu skref eftir að halda áfram þeirri vinnu sem VR hefur staðið í undanfarnar vikur.  „Kjarasamningarnir eru náttúrulega langstærsta málið af öllum, það er áskorunin hjá okkur núna.“

Ragnar Þór var ekki viðstaddur fund VR þar sem úrslitin voru tilkynnt heldur sótti hann fundinn í gegnum fjarfundabúnað. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa átt heimagengt á fundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert