Vorum litla liðið þegar við komum inn í tímabilið

Kári gaf ekkert eftir þegar hann lyfti Íslandsbikarnum á Víkingsvellinum …
Kári gaf ekkert eftir þegar hann lyfti Íslandsbikarnum á Víkingsvellinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Árnason landsliðsmaður í knattspyrnu og lykilmaður Víkinga þurfti að horfa á leikinn gegn Leikni í dag úr áhorfendastúkunni vegna leikbanns og þaðan horfði hann á liðsfélaga sína tryggja félaginu sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í þrjátíu ár.

Kári sagði við mbl.is eftir að það hefði verið erfitt að horfa á leikinn í stað þess að taka þátt í honum.

„Þetta var skelfilegt. Ég svaf ekkert vikunni fyrir leikinn. Það er miklu meira stress að vera uppi í stúku en nokkru sinni inni á vellinum. Þetta var ótrúlegt. En við erum búnir að skóla þessa stráka vel og þeir vita alveg hvað þeir eiga að gera. Þegar allt er undir, standa þeir sig, og það er herslumunurinn. Menn standa upp þegar á móti blæs og ég er óendanlega stoltur af þessum strákum og hvernig þeir hafa staðið sig í sumar.

Auðvitað töpuðum við leikjum og glutruðum niður stigum en ef þú horfir á töfluna þá er bara eitt lið búið að tapa fæstum leikjum. Það erum við. Öll þessi jafntefli hjá okkur voru yfirleitt einhver klaufaskapur hjá okkur á 90. mínútu eða eitthvað slíkt. Við vissum alveg að við værum besta liðið í þessari deild og taflan lýgur ekki. Við erum líka eina liðið af þeim sem eru í efri hlutanum sem er eftir í bikarnum," sagði Kári og benti á ákveðnar staðreyndir sem sýndu stöðu Víkingsliðsins.

Víkingar voru vel með á nótunum á leiknum í dag.
Víkingar voru vel með á nótunum á leiknum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert lið sem getur sagt að það sé betra en við

„Annað af þessum töpum var gegn Leikni og við ætluðum að leiðrétta það í dag. Ég fór í nettan útreikning á stigum fyrir leikinn og sá að á móti einu liði í deildinni værum við í mínus á þessu ári. Það var Leiknir. Við stóðum á núlli gegn Breiðabliki og vorum í plús gegn öllum hinum. Við gátum núllað út Leikni og gerðum það í dag, þannig að eftir stendur að það er ekki eitt einasta lið á Íslandi sem getur í raun sagt að það sé betra en við vegna þess að annaðhvort er það á núlli gegn okkur eða þá að við erum í plús.

Þetta er staðan í dag, ég veit allt um Blikana og að þeir spila rosagóðan fótbolta og allt það, og það er búið að tala rosalega mikið við þá. Við vorum litla liðið þegar við komum inn í tímabilið með minni peninga til umráða og minni leikmannahóp en margir aðrir. 

Við erum með mjög góða stráka og góða stráka á bekknum en það er nánast sama hver er settur inn á hjá Breiðabliki, það eru allt saman svipaðir og góðir leikmenn. Við höfum talað um hvað þarf að gera til að vinna leiki, og við erum svo sannarlega búnir að sýna það í sumar að við erum tilbúnir til að fórna öllu.

Seiglan í þessu liði er bara ótrúleg og fá lið sem ráða við það hjá okkur. Við mætum liðum sem reyna að brjóta okkur niður með hörku því við erum með unga leikmenn, en þeir standa bara í lappirnar og gefa þeim einn á móti, og því er ég svo stoltur af. Það hafa þeir gert í sumar, það er það sem þeir hafa  bætt við sig síðan í fyrra.“

Steming í stúkunni á Víkingsvellinum.
Steming í stúkunni á Víkingsvellinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú kom í ljós hve góður Júlli er

„Auðvitað höfum við fengið leikmenn, eins og að fá Pablo (Punyed) inn, reyndan miðjumann við hliðina á Júlla (Júlíusi Magnússyni). Allir í Víkingsheimilinu og í kringum Víking vita hve góður Júlli er en þegar hann þarf að bera ábyrgð á tveimur til þremur öðrum leikmönnum þá kemur það kannski ekki voðalega mikið í ljós. En um leið og hann fékk Pablo við hliðina á sér, sem tekur ábyrgð á sínum eigin gjörðum og gefur eitthvað til liðsins, fram á við líka, þá kemur í ljós hve góður Júlli er. Við sáum það í þessum leik, þegar allt er undir þá er hann geggjaður.

Eins með Halla (Halldór Smára Sigurðsson). Hann hefur verið í miðlungsliði allt sitt líf og ég er bara ánægðastur fyrir hans hönd að hafa landað þessum sigri. Nú getur hann verið leikjahæsti leikmaður Víkings frá upphafi og verið um leið með þannan titil á bakinu. Mér finnst það geggjað.

Við vitum að Víkingur er stórt félag og á helling af stuðningsmönnum en titlarnir hafa ekki verið alveg eftir því. Nú ætlum við að reyna að byggja ofan á þetta og reyna að taka bikarmeistaratitilinn næst. Sjáum svo til hvað gerist á næsta ári," sagði Kári.

Íslandsmeistararnir 2021 - Víkingar
Íslandsmeistararnir 2021 - Víkingar mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hægt með góðri þjálfun og góðu skipulagi

Þá verður hann í nýju hlutverki, enda leggur hann skóna á hilluna eftir þetta tímabil og tekur við starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá Víkingi.

„Gætirðu skrifað þetta handrit eitthvað betur, sérstaklega ef okkur tekst að vinna bikarinn líka? Ég held ekki," sagði Kári og um sitt nýja hlutverk sagði hann:

„Ég vona að ég geti á endanum selt alla þessa stráka til AC Milan! En ég ætla að vinna þetta með Arnari og reyna að byggja ofan á það sem komið er. Við erum Íslandsmeistarar í dag, þó ótrúlegt sé að segja það. Við erum Íslandsmeistarar, við erum komnir í bílstjórasætið, og við ætlum að reyna að halda því þannig.

Auðvitað er erfitt að halda þessu. Önnur félög eru með rosalega peninga á bakvið sig og hrúgu af leikmönnum. En við sýndum núna að við unnum deildina án þess að vera með rosalegan leikmannahóp. Þetta er hægt með góðri þjálfun og góðu skipulagi þannig að við höldum áfram á okkar vegferð," sagði Kári Árnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert