Fimm ára fangelsi fyrir að snúa heim

Flestir þeirra sem eru í einangrun vegna Covid-19 í Ástralíu …
Flestir þeirra sem eru í einangrun vegna Covid-19 í Ástralíu smituðust á Indlandi. Myndin er úr safni. AFP

Ástralskir ríkisborgarar sem eru á leið heim frá Indlandi gætu mætt alvarlegum afleiðingum frá og með mánudegi; allt að fimm ára fangelsi og sektum. Er þetta vegna þess að ríkisstjórn Ástralíu hefur gert ferðina frá Indlandi til Ástralíu tímabundið ólöglega.

BBC greinir frá þessu.

Heilbrigðisráðuneytið sagði að ákvörðunin hafi verið tekin vegna þess að hátt hlutfall þeirra sem eru í einangrun í Ástralíu smituðust á Indlandi. 

Óhófleg aðgerð eða nauðsynleg?

Fyrr í þessari viku tóku stjórnvöld í Ástralíu ákvörðun um að banna allar flugferðir frá Indlandi. 

Gert er ráð fyrir að 9.000 Ástralar séu á Indlandi og þar af falla 600 í áhættuhópa vegna Covid-19. 

Er þetta í fyrsta sinn sem áströlsk stjórnvöld gera það glæpsamlegt fyrir Ástrala að snúa aftur til heimalandsins. Reglurnar taka gildi á mánudag. Með þeim verður fólki sem hefur dvalið á Indlandi á 14 daga tímabili fyrir komu til Ástralíu óheimilt að koma inn í landið. 

Ástralski læknirinn Vyom Sharmer sagði í samtali við ABC að aðgerð stjórnvalda væri óhófleg miðað við þá áhættu sem það skapaði þegar Ástralar sneru aftur frá Indlandi. Heilbrigðisráðherra Ástralíu telur aðgerðina nauðsynlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert