„Gerist ekki allt með einhverju pennastriki“

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, í leiknum í dag.
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfyssinga, var ekki sáttur með sína menn í dag er liðið tapaði með sjö marka mun gegn ÍBV í Vestmannaeyjum. Leiknum lauk 32:25 en fannst Halldóri sú staða gefa rétta mynd af leiknum?

„Já, að mörgu leyti áttum við ekkert meira skilið. Við byrjum leikinn alltof linir og alltof soft, þeir ná að gera alla sína einföldu hluti án þess að við náum að hægja eitthvað á þeim. Við vorum alltaf á eftir þó að við værum að skora, síðustu tíu í fyrri voru góðar þar sem Tryggvi kom með fínan kraft inn í varnarleikinn og frammi. Leikurinn var í jafnvægi í hálfleik en í seinni hálfleik spilum við öllu frá okkur,“ sagði Halldór en hann vill þó meina að byrjun seinni hálfleiks hafi ekki verið svo slæm.

„Við komum kannski ekki beint illa inn í síðari hálfleikinn en þegar líður á hann þá fara þeir fram úr okkur. Við erum að taka slæmar ákvarðanir og þvinga okkur í erfið skot í staðinn fyrir að skoða möguleikana sem eru þarna. Það voru ótrúlega opnir möguleikar í breiddina en við vorum alltaf að hlaupa inn í miðsvæðið til þeirra, það vantaði líka framlag frá leikmönnum. Það voru alltof miklar sveiflur á milli manna í stöðum, ég er ósáttur við það. Þetta er frammi og í vörninni, við getum ekki skorað mark úr hraðaupphlaupi það virðist vera lífsins ómögulegt fyrir okkur.“

Selfyssingar eru í 8. sæti með 6 stig en efstu liðin eru komin með 12 og 13 stig, er mikill getumunur á liðunum?

„Núna er getumunur á liðunum, það er klárt mál. Við erum að fá leikmenn til baka sem þurfa auðvitað tíma, Gummi (Guðmundur Hólmar Helgason) hefur samt komið mjög vel inn í þetta. Það eru fleiri þættir og allt það, en við þurfum þó að vera auðmjúkir gagnvart stöðunni, það gerist ekki allt með einhverju pennastriki. Við klöppum ekki saman höndunum og allt verður frábært, þetta er meiri vinna en það. Við þurfum að halda áfram að vinna í okkur og reyna að sækja eins mörg stig og við getum. Við erum í erfiðleikum með hvert einasta lið og getum í raun ekki ætlast til því að við komum til Vestmannayja og vinnum mjög gott ÍBV-lið, sem hefur verið mjög sterkt í byrjun móts.“

Það eru mjög margir Selfyssingar í hópnum og það virðist vera ljóst hvernig á að vinna hlutina á Selfossi.

„Við erum með mjög marga Selfyssinga og heimamenn, það er engin spurning að við erum að vinna þetta á heimastrákum. Mér finnst getan vera miklu meiri í liðinu heldur en við erum að sýna, það er mitt sem þjálfarans að ná þessari einstaklingsgetu inn í liðið. Ef við förum að spila af þeim krafti sem við vitum að við getum spilað á, sem við vitum að getur tekið tíma og við þurfum að halda áfram að vinna í okkar hlutum. Þetta gerist ekki í einum leik, eða eitthvað slíkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert