Einni körfu frá því að vinna leikinn

Matthías Örn Sigurðarson og Jaka Brodnik í leiknum í kvöld.
Matthías Örn Sigurðarson og Jaka Brodnik í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Darri Freyr Atlason, þjálfari KR, var að vonum svekktur með naumt 101:104 tap gegn Tindastóli í úrvalsdeildinni í körfuknattleik karla í kvöld en telur liðið þrátt fyrir það vera á réttri leið.

„Ég er drullufúll með að tapa leiknum en að sama skapi erum við ánægðir með í hvaða átt þetta er að fara, sérstaklega þegar við hugsum til þess að þetta sé í rauninni einn æfingamánuður, þótt það sé miklu lengri tími liðinn frá því að við spiluðum síðast. Ef við höldum áfram þessum framförum erum við í flottum málum þegar það skiptir máli,“ sagði Darri í samtali við mbl.is eftir leik.

Mikið jafnræði var með liðunum en í fyrri hálfleik náði Tindastóll yfirhöndinni í leiknum þegar tæplega helmingur þriggja stiga skota liðsins fór ofan í körfuna en tæplega 30 prósent hjá KR á sama tíma.

„Mér fannst við alveg vera að búa til góð skot en svo er þetta alltaf spurning um hvort boltinn fer ofan í eða upp úr. Hjá þeim, í fyrri hálfleik sérstaklega, var nýtingin alveg frábær í þriggja stiga skotunum, um 47 prósent. Það er mjög erfitt að spila við lið sem er að skjóta boltanum næstum því 50 prósent frá þriggja stiga línunni. Þannig að það að halda okkur inni í þessu og eiga séns var helvíti vel gert. Svo vorum við bara einni körfu frá því að vinna leikinn,“ bætti Darri við.

Hann segist bjartsýnn á framhaldið enda væri nýr leikmaður liðsins, Ty Sabin, sem skoraði 47 stig í leiknum, afar öflugur. Auk þess stefni liðið að því að semja við nýjan miðherja á næstunni. „Við erum á réttri leið, það er það sem skiptir máli. Ty er frábær og við munum bæta við okkur allavega einum leikmanni og hann verður stærri en þeir sem eru í liðinu núna!“

Darri Freyr Atlason, þjálfari KR.
Darri Freyr Atlason, þjálfari KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að lokum kom Darri aðeins inn á þá erfiðu stöðu sem óvissa um mótahald hafi haft í för með sér. „Við erum náttúrulega í þessari stöðu að við höfum verið með leikmenn sem við bjuggumst við að yrðu í KR en fóru seint. Svo ákváðum við að láta útlendingana okkar fara, allavega annan þeirra núna þegar mótið var stoppað.

Okkur fannst það ekki ábyrgt að semja við aðra fyrr en það væri búið að staðfesta að mótið færi raunverulega fram, sérstaklega þar sem það var búið að fresta því með mjög skömmum fyrirvara tvisvar. Þannig að núna erum við aðeins að elta skottið okkar af því að það var ekki hægt að gera þetta með meiri fyrirvara, sem er synd, en við bara berjumst áfram í þessu,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert