Grunaður morðingi handtekinn

Maðurinn hélt til á heimili sínu.
Maðurinn hélt til á heimili sínu. AFP/JIJI Press

Lögreglan í Japan handtók fyrr í dag karlmann á fertugsaldri sem grunaður er um að hafa orðið fjórum að bana í gær vopnaður hníf og byssu. 

Masanori Aoki, maðurinn sem liggur undir grun, hafði flúið lögreglu og haldið til á heimili sínu í grennd við borgina Nakano í Nagano-héraði í Japan eftir verknaðinn.

Hann er grunaður um að hafa banað tveimur karlkyns lögregluþjónum og tveimur konum. 

Iwao Koyama, yfirlögregluþjónn Nagano, segir samfélagið í áfalli yfir árásinni sem hann lýsir sem sérstaklega hrottafenginni. 

Morðtíðni í Japan er afar lág á heimsvísu og er löggjöfin um byssueign sömuleiðis sérlega ströng. 

Yfir hundrað lögregluþjónar koma að rannsókn málsins en að sögn Koyama hefur Aoki ekki neitað sök í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert