Konsa hetja Villa gegn Leicester

Ezri Konsa skorar annað mark sitt og Aston Villa í …
Ezri Konsa skorar annað mark sitt og Aston Villa í dag. AFP

Aston Villa vann sterkan 2:1 endurkomusigur á Leicester City þegar liðin mættust í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag. Leicester náði forystunni en miðvörðurinn Ezri Konsa svaraði með tveimur mörkum fyrir Villa.

Harvey Barnes kom gestunum yfir á 14. mínútu. Hann fékk þá sending frá Patson Daka, lék með boltann inn í vítateig og lagði hann snyrtilega á milli fóta Konsa, þaðan sem boltinn rataði í bláhornið fjær.

Aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Villa metin. Douglas Luiz sendi boltann á fjærstöngina úr aukaspyrnu, Matty Cash skallaði boltann þvert fyrir þar sem Emiliano Buendía skallaði að marki áður en títtnefndur Konsa stökk til og stýrði boltanum í netið af stuttu færi.

Jacob Ramsey virtist vera að koma Villa yfir skömmu fyrir leikhlé en MichaeL Oliver dómari dæmdi markið af eftir að hafa skoðað það í VAR. Þótti honum sem Ramsey hafi sparkað boltann úr höndum Kasper Schmeichel, sem var með aðra höndina ofan á boltanum, þegar hann skoraði.

Staðan var því jöfn, 1:1, í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik, á 54. mínútu, skoraði Konsa annað mark sitt. Það gerði hann með skalla af stuttu færi á fjærstönginni eftir hornspyrnu John McGinn frá hægri.

Leikmenn Leicester reyndu hvað þeir gátu til þess að jafna metin en Villa hélt og vann að lokum góðan eins marks sigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert