Ekið á gangandi vegfaranda í miðbænum

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Ekið var á gangandi vegfaranda um eittleytið í miðbæ Reykjavíkur í dag og var sá slasaði fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku Landspítalans. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar.

Lögreglu bárust margar tilkynningar um einstakling í annarlegu ástandi sem hafði verið að ónáða fólk í Laugardalnum. Var maðurinn handtekinn og vistaður í fangaklefa sökum ástands.

Þá var einnig tilkynnt um líkamsárás í Hlíðunum í Reykjavík og var árásarmaðurinn handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Þrír grunaðir um akstur undir áhrifum

Lögreglan hafði afskipti af þremur ökumönnum vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Voru allir ökumennirnir handteknir og færðir í sýnatöku.

Maður slasaðist eftir að hafa dottið af reiðhjóli vegna hálku í Kópavogi í morgun. Var hann fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku Landspítalans.

Tilkynnt var um innbrot í tvær bifreiðar í Grafarvogi í dag og um rúðubrot í fyrirtæki í Árbæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert