Viðspyrnuaðgerðir geti „hjálpað töluverðum fjölda fyrirtækja“

Jóhannes Þór Skúlason segir ferðaþjónustufyrirtæki loksins vera komna með heildarsýn …
Jóhannes Þór Skúlason segir ferðaþjónustufyrirtæki loksins vera komna með heildarsýn á aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, líst vel á þær viðspyrnuaðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í dag, segir þær mjög mikilvægar og er bjartsýnn fyrir komandi ár í ferðaþjónustu.

„Ég held að það skipti miklu máli að þessar aðgerðir eru komnar fram og það er alveg ljóst að það er mjög mikilvægt fyrir fyrirtækin að fá þessa heildarsýn yfir aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, þannig að þau geti farið að skoða hvernig aðgerðirnar passa við reksturinn hjá þeim og gert áætlanir inn í veturinn,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.

„Þarna eru menn komnir með heildræna sýn á það hvað ríkið ætlar að leggja fram, og það er ákaflega gott. Mér sýnist þetta vera eitthvað sem geti hjálpað töluverðum fjölda fyrirtækja.“

Finnst þér nóg gert í þessum viðspyrnuaðgerðum?

„Það er alltaf hægt að bítast um það hvað er nóg í aðstæðum eins og þessum. Það sem skiptir mestu máli er að ríkisstjórnin viðurkennir, og hefur gert með aðgerðum sínum hingað til, að mikilla mótvægisaðgerða er þörf og við verðum síðan að meta þetta á hverjum tíma, eins og forsætisráðherra hefur sagt ítrekað,“ segir Jóhannes.

Landamærafyrirkomulag mætti kynna fyrr

Hann segir það ekki hafa komið sér á óvart að sóttvarnafyrirkomulag við landamæri Íslands haldist óbreytt, en að betra hefði verið að fá það á hreint fyrr, og að of lengi sé beðið með næstu ákvörðun um fyrirkomulagið.

„Við höfðum vonast til þess að það væri tilkynnt um framkvæmd sóttvarna inn í næsta ár fyrr en 15. janúar. Hver vika skiptir máli í þeim efnum.“

Jóhannes segist þó bjartsýnn á komandi ár í ferðaþjónustunni, og að sumarið eigi eftir að verða gott.

„Ég er sannfærður um að ferðaþjónustan eigi eftir að ná sér vel á strik,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka