Tindastóll fallinn eftir tap gegn Stjörnunni

Jacqueline Altschuld og Anna María Baldursdóttir eigast við í leiknum …
Jacqueline Altschuld og Anna María Baldursdóttir eigast við í leiknum í dag. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Tindastóll tók á móti Stjörnunni í seinustu umferð Pepsi Max deildarinnar. Tindastólsstelpur sátu í næst neðsta sæti deildarinnar með 14 stig, á eftir Keflavík sem voru með 17 stig en töluvert betri markatölu.

Stólastúlkur þurftu því á kraftaverki að halda í dag til að halda sér uppi í efstu deild, fyrir hið fyrsta að vinna leikinn og treysta á að Keflavík tapaði fyrir Þór/KA sem fór fram á sama tíma, og annað, þær þurftu  að treysta á að skora sjálfar yfir sex mörk og að Keflavík myndu ekki skora neitt mark að minnsta kosti. Brekkan var Stólastúlkum of brött í dag því að þær töpuðu leiknum 1-2 og leika því í næst efstu deild að ári.

Tindastóll byrjaði leikinn af krafti og komust yfir á 4. mínútu þegar að Aldís María átti glæsilegan sprett upp kantinn og sendi boltann fyrir á Murielle Tiernan sem lét hann fara og þar var mætt Hugrún Pálsdóttir sem kláraði sóknina með marki. Heimastúlkur voru hinsvegar fljótt dregnar niður á jörðina því að á 8. mínútu jafnaði Stjarnan eftir hornspyrnu. Amber sló þá boltann út í teig og fór síðan í glórulaust skógarhlaup þar sem Betsy Hasset var á undan í boltann og skallaði hann fyrir fætur Elínar Helgu sem skoraði. Þetta jöfnunarmark slökkti í heimastúlkum og fleiri urðu mörkin ekki í seinni hálfleik.

Stólastelpur byrjuðu seinni hálfleik líkt og þann fyrri, af krafti. Það vantaði þó alltaf seinasta smiðshöggið í sóknum Stólanna. Þrátt fyrir að Amber hafi farið í glórulaust skógarhlaup í fyrri hálfleiknum, þá bjargaði hún sínum konum ítrekað í seinni hálfleiknum, frábært markmaður og án hennar væri Tindastóll að öllum líkindum löngu fallið. Á 84. mínútu átti Betsy Hasset góðan sprett upp að endalínu og sendi boltann fyrir og náði Amber rétt að klukka hann og Bryndís Rut reyndar líka að því er virtist, en boltinn endaði hjá Örnu Dís sem setti hann í markið. Það verður að teljast líklegt að ef Arna hefði ekki skorað, hefði sennilega verið dæmt vítaspyrna enda fór boltinn nokkuð augljóslega í hönd Bryndísar, fyrirliða Tindastóls.

Fleiri urðu mörkin ekki og þetta tap Tindastóls þýddi að liðið er fallið með 14 stig. Þessi sigur Stjörnunnar þýðir þó reyndar það að liðið hoppar upp fyrir Selfoss og endar í fjórða sæti í deildinni með 27 stig.

Tindastóll 1:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið á Akureyri þar sem að lokatölur urðu 0-0 í leik Þór/KA og Keflavíkur. Tindastóll er því nær örugglega fallið úr efstu deild.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert