Blair segir Íhaldsflokkinn geta haldið velli

Tony Blair, fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokksins, segir ekkert ómögulegt í pólitík.
Tony Blair, fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokksins, segir ekkert ómögulegt í pólitík. AFP

Þrátt fyrir að vera eftirbátar í skoðanakönnunum telur Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra leiðtogi breska Verkamannaflokksins, að Íhaldsflokkurinn eigi sér viðreisnar von í komandi kosningum. 

Þrátt fyrir að Verkamannaflokkurinn sé með tuttugu prósenta forskot á Íhaldsflokkinn segir Blair að Rishni Sunak, leiðtogi Íhaldsmanna og forsætisráðherra, sé að laga þá hnekki sem flokkurinn beið í stjórnartíð Borisar Johnson og Liz Truss. 

Sunak með forskot á Starmer í könnunum

„Í pólitík geturðu ekki gengið að neinu sem vísu,“ sagði fyrrverandi forsætisráðherrann sem hefur þó miklar mætur á Keir Starmer, leiðtoga Verkamannaflokksins, þótt Sunak sé vinsælli í skoðanakönnunum. 

„Hann er skynsamur maður og hefur alla burði til þess að stýra landinu“.

Blair telur að tími Íhaldsflokksins við stjórnvölinn sé liðinn og vonast til þess að Verkamannaflokkurinn taki við. Að viðhalda góðum tengslum við evrópskan markað er að hans mati mest aðkallandi verkefnið á komandi kjörtímabili sem hefst eftir kosningar á næsta ári. 

Það sé sérstaklega aðkallandi að vinna saman í tæknimálum, ella verði Bretland eftirbátur í þeim efnum. 

„Annars verður Evrópa, og Bretland þar með talið, fast á milli tveggja tæknirisa, það er Kína og Bandaríkjanna, og mögulega Indlands líka. Með samtakamætti er ýmislegt hægt,“ sagði Blair.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert