Erlent

Einn vin­sælasti rappari Sví­þjóðar skotinn til bana

Atli Ísleifsson skrifar
Einár var skotinn til bana í Hammarby sjöstad í Stokkhólmi í gærkvöldi.
Einár var skotinn til bana í Hammarby sjöstad í Stokkhólmi í gærkvöldi. Getty/Facebook

Sænski rapparinn Einár var skotinn til bana í Hammarby sjöstad í Stokkhólmi í gærkvöldi. Sænskir fjölmiðlar greina frá því að heimildarmenn segi Einár hafa ítrekað verið hótað. Morðið er talið tengjast átökum glæpagengja í sænsku höfuðborginni.

Expressen segir frá því að sést hafi til tveggja manna hlaupa af vettvangi árásarinnar, en enginn hefur enn verið handtekinn.

Einár hét réttu nafni Nils Kurt Erik Einar Grönberg og var hann með margar milljónir hlustana á Spotify. Hann hafði unnið til sænsku tónlistarverðlaunanna, Grammis, bæði sem nýliði ársins og besti hip-hop listamaður ársins.

Hann var nítján ára gamall.

Ola Österling, talsmaður lögreglu, segir að vitni hafa verið að árásinni.

Tilkynnt var um árásina við syðri Hammarbyhöfnina klukkan 22:50 að staðartíma í gærkvöldi. Mikill fjöldi lögreglumanna var þá kallaður á staðinn og kom að alvarlega særðum manni. Hafði hann verið skotinn í höfuðið og bringu. Hann var í framhaldinu úrskurðaður látinn.

Rannsókn lögreglu er í fullum gangi.

Einar fæddist í Stokkhómi árið 2002 og sló í gegn sextán ára gamall með laginu Katten í trakten sem náði efsta sæti sænska vinsældalistans. Sama ár, 2019, gaf hann út sína fyrstu plötu, Första klass.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×