Senda hlý föt og hlýjar hugsanir til Úkraínu

Aðalbjörg Rúnólfsdóttir (t.v.) og Guðný Gunnarsdóttir (f.m.).
Aðalbjörg Rúnólfsdóttir (t.v.) og Guðný Gunnarsdóttir (f.m.). Ljósmynd/Aðsend

Aðalbjörg Runólfsdóttir á Selfossi greip til þess ráðs í október að prjóna hlý föt fyrir konur og börn í Úkraínu. Með góðri aðstoð póstsins hefur hún sent aðra sendingu af hlýjum fötum til Úkraínu. Hún stefnir nú á að senda aðra sendingu í janúar.

„Það var áberandi í umræðunni þegar fólk tók sig til og prjónaði ullarsokka fyrir hermenn í Úkraínu, en þá kviknaði sú hugmynd hjá mér að prjóna hlý föt fyrir konur og börn í Úkraínu því þeim væri væntanlega kalt líka,“ segir Aðalbjörg.

„Ég tók myndir af fatnaðinum og sendi til íslensks vinar míns, sem býr í Úkraínu, og spurði hann hvort hann gæti komið þessu í góðar hendur. Hann var mjög ánægður með þetta framtak og sagðist geta losað mig við fullt af hlýjum fatnaði þar.“

Ullarfatnaðurinn rauk út

Aðalbjörg tók sig til og safnaði saman talsvert af fatnaði sem hún hafði prjónað og pakkaði því öllu í stóran kassa, þann stærsta sem var til hjá Póstinum á Selfossi.

„Ég sendi þetta til hans í október en það tekur um mánuð fyrir sendinguna að komast á leiðarenda. Vinur minn og úkraínsk eiginkona hans fóru með kassann í hverfisbúðina þeirra í bæ skammt fyrir utan Kænugarð og ullarfatnaðurinn rauk út á svipstundu.

Ég fékk tölvupóst frá úkraínskri konu sem þakkaði vel fyrir sig og það hlýjaði mér um hjartaræturnar. Ég fór strax að undirbúa aðra sendingu sem ég stefndi á að senda í janúar.”

Móðir Aðalbjargar, Guðný Gunnarsdóttir, er með handverkshóp eldri borgara á Selfossi.

„Konurnar í hópnum spurðu hvort þær mættu vera með, sögðust eiga hitt og þetta sem kæmi að góðum notum. Fleira fólk hér á Selfossi hefur síðustu daga lagt verkefninu lið og gefið hlý föt til að senda með til Úkraínu.

Þetta endar því í alls sjö kössum sem við sendum héðan frá Selfossi til Úkraínu,“ segir Aðalbjörg og bætir við að hún vilji þakka þeim sem lögðu verkefninu lið fyrir hjartahlýjuna.

Pósturinn sendir kassana frítt út

Aðalbjörg heimsótti Póstinn á Selfossi og spurði hvort hægt væri að fá afslátt af sendingarkostnaðinum.

„Guðrún Hulda Waage, stöðvarstjóri Póstsins á Selfossi, tók vel í erindi mitt og bauðst til að leggja okkur lið,“ segir Aðalbjörg og heldur áfram:

„Ég er mikil prjónakona og þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Ég mun halda áfram að prjóna til að eiga í kassa hvað sem svo verður um það. Það gæfi mér mjög mikið að senda fleiri kassa út til fólksins sem lifir við þetta hræðilega stríð.

Það yljar okkur mæðgum um hjartaræturnar að fleira fólk hér á Selfossi taki þátt í þessu með okkur. Það er auðvitað alveg yndislegt. Ég vil þakka öllum sem að þessu komu fyrir hjartahlýjuna.“

Guðrún Hulda Waage, stöðvarstjóri Póstsins á Selfossi, kveðst ánægð með þetta framtak.

„Þegar Aðalbjörg hafði samband við okkur og sagði mér frá þessari hugmynd vissum við strax að okkur langaði að taka þátt og styrkja þær eins og við gætum. Við ákváðum að styrkja þær að fullu með allan sendingarkostnað til Úkraínu. Við sóttum kassana til þeirra og fórum strax í að vinna þá til að koma þeim á áfangastað eins fljótt og auðið er. Það er svo frábært að fá tækifæri til þess að leggja svona fallegu framtaki lið," segir Guðrún Hulda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert