Kaupa ungan Chelsea-mann á 18 milljónir

Patrick Vieira, knattspyrnustjóri Crystal Palace, er byrjaður að styrkja lið …
Patrick Vieira, knattspyrnustjóri Crystal Palace, er byrjaður að styrkja lið sitt fyrir næsta tímabil. AFP

Enski varnarmaðurinn Marc Guehi er genginn í raðir enska úrvalsdeildarfélagsins Crystal Palace og kemur hann frá uppeldisfélagi sínu, Chelsea.

Guehi, sem er 21 árs, gerir fimm ára samning og er kaupverðið 18 milljónir punda, sem er dágóður skildingur fyrir leikmann sem á aðeins tvo leiki að baki í deildabikar fyrir Chelsea.

Hann er þar með orðinn þriðji dýrasti leikmaðurinn í sögu Palace, á eftir þeim Christian Benteke og Mamadou Sakho, sem voru báðir keyptir frá Liverpool.

Undanfarið eitt og hálft ár hefur Guehi nælt sér í dýrmæta leikreynslu hjá Swansea City í ensku B-deildinni, þar sem hann lék 52 deildarleiki og þótti standa sig vel.

Guehi á fjölda landsleikja að baki fyrir öll yngri landslið Englands og er enn gjaldgengur í U21-árs landsliðið.

Þá er hann fæddur á Fílabeinsströndinni og getur því leikið fyrir landslið þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert