Rétti tíminn til að semja við einkareknar stofur?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Er ekki rétti tíminn núna til þess að við á sama tíma léttum á heilbrigðiskerfinu og fáum meira fyrir útgjöld skattgreiðendanna með því að semja við einkareknar stofur um að fást við þær aðgerðir sem hafa í mörgum tilvikum beðið mánuðum, jafnvel árum saman?“ spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á þingfundi í morgun.

Sigmundur beindi fyrirspurn sinni til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Hann sagði að nú væri ríkið að fást við mestu efnahagslegu niðursveiflu í hundrað ár og þyrfti að fá meira fyrir peninginn.

„Er þetta ekki akkúrat rétti tíminn til að ráðast í slíkar aðgerðir?“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Arnþór

Ég tel að það sé alltaf rétti tíminn til að fara vel með peningana og tel að alveg óháð þessum kórónuveirufaraldri sé það almennt góð ráðstöfun að semja við þá sem geta verið sveigjanlegir og hagkvæmir í að veita þessa opinberu þjónustu, þjónustu sem er fjármögnuð af opinberu fé,“ sagði Bjarni Benediktsson.

Ráðherra sjálfur farið í aðgerðir á öðrum stöðum

Ráðherra benti á að hann hefði látið gera við öxlina og hnéð á sér á undanförnum árum og það hafi ekki verið gert á sjúkrahúsi.

„Ég held að það sé hárrétt ábending að að því marki sem dregið hefur úr getu Landspítalans til að sinna slíkum verkefnum þá eigum við að skoða leiðir til að treysta meira á aðra sem eru með umfangsminni starfsemi sem geta sinnt slíkum verkefnum,“ bætti Bjarni við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert