Fer frá Juventus eftir 17 ára dvöl

Giorgio Chiellini í baráttunni í gærkvöldi.
Giorgio Chiellini í baráttunni í gærkvöldi. AFP/Isabella Bonotto

Giorgio Chiellini, fyrirliði karlaliðs Juventus í knattspyrnu, hefur staðfest að hann muni yfirgefa félagið eftir 17 ára dvöl þegar yfirstandandi tímabili lýkur.

Chiellini var áður búinn að tilkynna að hann hygðist leggja landsliðsskóna á hilluna í sumar. Þá rær hann á önnur mið enda ekki búinn að leggja skóna alfarið á hilluna.

Hann er 37 ára gamall og vann níu Ítalíumeistaratitla í röð á ferli sínum hjá Juventus auk þess að vinna til fimm bikarmeistaratitla.

Sá sjötti kom ekki í gær þegar Juventus tapaði 2:4 fyrir Internazionale frá Mílanó í úrslitaleik ítölsku bikarkeppninnar eftir framlengdan leik.

Í samtali við Mediaset eftir tapið í gærkvöldi staðfesti Chiellini að hann væri á förum en að hann vissi ekki hvert hann héldi næst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert