Vanlíðan hefur aukist og stórir hópar hafa það verr

Drífa segir að versnandi heilsa og aukið álag muni segja …
Drífa segir að versnandi heilsa og aukið álag muni segja til sín á næstu árum. Ljósmynd/Aðsend

Vanlíðan launafólks hefur aukist í kórónuveirufaraldrinum og stórir hópar hafa það verr fjárhagslega en fyrir ári síðan. Á það sérstaklega við um láglaunafólk, innflytjendur, einstæða foreldra og barnafólk. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar Vörðu – rannsóknarmiðstöðvar vinnumarkaðarins. Þar er dregin upp mynd af þeim fórnum sem launafólk innan ASÍ og BSRB hefur fært í faraldrinum.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir niðurstöðurnar sýna að að á Íslandi sé fullvinnandi fólk sem býr við fátækt.

„Launin eru lág en það sem líka spilar stórt hlutverk er íþyngjandi húsnæðiskostnaður. Sú tilraunastafsemi að láta fjárfesta og braskara sjá um húsnæðismarkaðinn er löngu búin að sanna skaðsemi sína og kominn er tími til að endurhugsa umgjörð húsnæðismála frá grunni. Húsnæði á að vera fyrir fólk en ekki fjárfesta, húsnæði á að vera viðráðanlegt venjulegu fólki og húsnæði á að vera öruggt. Þetta er eitt stærsta kjaramálið núna og mun ráða úrslitum um hvernig til tekst í kjaraviðræðunum í haust; að stjórnvöld verði við ákalli vinnandi fólks um úrlausnir,“ skrifar Drífa í pistli á heimasíðu ASÍ. 

Versnandi heilsa og aukið álag mun segja til sín

Hún bendir á að álag hafi aukist bæði heimavið og í vinnu í faraldrinum. Það eigi sérstaklega við um konur í láglaunastörfum sem feli í sér mikið álag vegna veirunnar, eins og umönnunar- og verslunarstörf, en standi líka þriðju vaktina heima fyrir.

„Það er ljóst að versnandi heilsa og aukið álag mun segja til sín á næstu árum ef ekkert er aðhafst. Mestu skipti að létta álagi á þeim stéttum sem hafa staðið vaktina í langan tíma. Jafnframt þarf að taka því mjög alvarlega að fátækt og öryggisleysið sem henni fylgir fóðrar vanlíðan og veikindi. Að hækka laun þannig að fólk hafi tækifæri til að framfleyta sér er þannig ekki aðeins kjaramál heldur líka eitt stærsta lýðheilsumálið.“

„Svigrúmið í efnahagslífinu“ geti ekki verið ráðandi þáttur

Drífa segir það skyldu þeirra sem tali fyrir hönd launafólks að koma til kjaraviðræðna nestuð þeirra raunveruleika. „Svigrúmið í efnahagslífinu“ geti ekki verið ráðandi þáttur eitt og sér, eins og atvinnurekendur, Seðlabankinn og jafnvel stjórnvöld muni syngja hátt næstu mánuði.

„Við höfum tilfærslukerfi sem eiga að virka, við getum gert svo miklu betur á húsnæðismarkaði, við getum eflt endurhæfingarúrræði, endurmenntun og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Síðast en ekki síst er það svo ekki lögmál hversu mikið er greitt í arð til eigenda fyrirtækja og hversu mikið fer til fólksins sem býr til arðinn – launafólks. Fátækt er ekki lögmál og á ekki að fyrirfinnast í okkar velferðarsamfélagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert