Íslendingarnir atkvæðamiklir í Þýskalandi

Ómar Ingi Magnússon skoraði átta mörk fyrir Magdeburg í dag.
Ómar Ingi Magnússon skoraði átta mörk fyrir Magdeburg í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslendingarnir í Magdeburg voru atkvæðamiklir í 27:24-sigri liðsins gegn Melsungen í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag. Magdeburg er í 4. sæti deildarinnar með 24 stig eftir 17 leiki, sex stigum frá toppliði Flensburg.

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur allra með átta mörk fyrir gestina og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fjögur. Þá var Íslendingaslagur er Bergischer vann 33:26-sigur á Lemgo. Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir heimamenn í Bergischer en Bjarki Már Elísson var markahæstur gestanna með sjö mörk.

Ýmir Örn Gíslason var ekki með RN Löwen sem gerði 26:26-jafntefli gegn Minden og var það stig í súginn í toppbaráttunni. Löwen er í öðru sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Flensburg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert