„Ef við hefðum tekið sex stig væri séns“

Byrjunarlið Íslands stillir sér upp fyrir leikinn í kvöld.
Byrjunarlið Íslands stillir sér upp fyrir leikinn í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sagðist sýta það að liðið hefði tapað stigum fyrr í undankeppni HM þar sem mjótt væri á munum í J-riðlinum.

„Við komum inn í þennan glugga með það fyrir augum að ef við hefðum tekið sex stig þá væri einhver séns. Það var ómögulegt að sjá það fyrir sér í mars hvað myndi ganga á hjá okkur. Eitt jafntefli á réttu augnabliki hefði breytt stöðunni. Það er staðan eins og hún er núna.

Við vitum öll hvað hefur gengið á. Vinnan sem við stöndum núna frammi fyrir er að halda áfram að vinna með þetta lið og sjá til þess að við séum í betri stöðu á næstu árum,“ sagði Arnar Þór á blaðamannafundi eftir 4:0-sigur gegn Liechtenstein á Laugardalsvelli í kvöld.

Eftir 1:1-jafntefli gegn Armeníu á föstudagskvöld og sigur í kvöld er Ísland með átta stig í riðlinum, fimm stigum á eftir Rúmeníu í öðru sæti og því ljóst að nokkur stig til viðbótar hefðu reynst ansi dýrmæt. Síðustu tveir leikirnir í riðlinum fara fram í nóvember, þar sem Ísland mætir Norður-Makedóníu og Rúmeníu á útivelli.

„Við höfum talað um þetta frá því í september, staðan var önnur í mars. Við erum á þeim tímapunkti að ég er að komast nær því að finna út úr því hvernig hópurinn verður á næstu árum. Ég er að komast nær því að finna tvöföldun í hverja stöðu, mér finnst við hafa tekið ákveðin skref.

Ég er mjög sáttur með hvernig liðið hefur spilað, á móti Armeníu og í dag. Það var fúlt að vinna ekki Armeníu. Við erum að taka réttu skrefin í rétta átt. Nóvember-verkefnið verður mjög mikilvægt, góðir leikir til að komast að niðurstöðu um hópinn fyrir næstu verkefni á næstu árum,“ bætti Arnar Þór við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert