Kapp ehf. og danska skipasmiðastöðin Karstensen Skibsværft, undirrituðu í dag samning um kaup Karstensen á Optim-ICE kælibúnaði sem fer í skip frá þremur útgerðum í Noregi, Svíþjóð og Skotlandi. Freyr Friðriksson, eigandi Kapp, segir að samningurinn sé afar mikilvægur í ljósi þess að Rússlandsmarkaður lokaðist vegna viðskiptaþvingana.

Freyr sagði við Viðskiptablaðið í mars að Kapp gæti orðið af nokkur hundruð milljónum króna í tekjur í ár en hlutdeild rússneskra viðskiptavina af tekjum félagsins hefur verið um 20%-30%.

Sjá einnig: Stór hluti tekna KAPP frá Rússlandi

„Þetta er stór og mikilvægur samningur og sérstaklega í ljósi þess að Rússland hefur lokast. Rússland hefur verið stór markaður fyrir okkur en við höfum þurft að hugsa upp á nýtt og stilla upp nýju leikkerfi. Það er því afar ánægjulegt að ná að þessum mikilvæga samningi við dönsku skipasmiðastöðina Karstensen Skibsværft. Það opnast ný tækifæri og við horfum björtum augum til framtíðar," segir Freyr en undirskrift samningsins fór fram á sjávarútvegssýningunni í Færeyjum í dag.

Stærsta skipið af þeim þremur skipum sem samningurinn nær til er Havsrup sem verður 77 metrar að lengd og 15,60 metrar að breidd. Gollines verður 66 metra langt og 14 metrar á breidd og Sille Marie 70 verður metrar á lengd og 15 metrar á breidd. Öll skipin eru hönnuð af Karstensen Skibsværft í samvinnu með kaupendur. Kapp mun sjá um framleiðslu og uppsetningu á Optim-ICE® ískrapakerfum um borð í öll skipin.

Freyr segir að Optim-ICE kælibúnaðurinn hafi á undanförnum árum sannað sig sem sérlega góð hraðkæling fyrir útgerðir og fiskvinnslur.

„Um er að ræða fljótandi ís sem leysir af hólmi hefðbundinn flöguís og er framleiddur um borð í skipunum. Kælingin umlykur fiskinn og heldur honum í kringum 0°C gráður allan fiskveiðitúrinn, í löndun, í flutningum o.s.frv. Kælikeðjan rofnar því aldrei með Optim-ICE."

Allur Optim-ICE® búnaður er hannaður og framleiddur hjá Kapp í Kópavogi og hefur verið seldur um allan heim síðan 1999.