Leiðtogar funda um Covid-19

António Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna tekur þátt í leiðtogafundi sem …
António Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna tekur þátt í leiðtogafundi sem er hluti af þingviku Norðurlandaráðs. AFP

Þriðjudaginn 27. nóvember verður haldinn leiðtogafundur þar sem fulltrúar Norðurlandaráðs, forsætisráðherrar Norðurlandanna og Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna funda saman um Covid-19. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs í dag.

„Þetta er í fyrsta sinn sem norrænum þingmönnum gefst færi á að ræða heimsfaraldur COVID-19 við forsætisráðherrana og leggja fyrir þá spurningar milliliðalaust,“ segir í tilkynningunni. 

Aðalritari SÞ ávarpar í beinni 

Fundinum verður streymt í beinni útsendingu kl. 17.00 á íslenskum tíma og verður opinn almenningi. Þá mun aðalritari Sameinuðu þjóðanna ávarpa fundinn og deila sinni sýn á faraldurinn út frá alþjóðlegu sjónarhorni.

Leiðtogafundurinn verður aðgengilegur á ensku, skandinavísku, finnsku og íslensku.

Norðurlandaráðsþing í fjarfundi 

Reglulegt þing Norðurlandaráðs átti að halda hér á landi í ár, í Hörpu nánar tiltekið. Þingið er árlegt og hefði líklega orðið einn stærsti viðburður ársins hér á landi en var fært í rafrænt form vegna óvissu í kjölfar Covid. 

Þá verður verðlaunaafhending Norðurlandaráðs sem ávallt er ákveðinn hápunktur á starfsári Norðurlandaráðs og uppskeruhátíð norrænnar samvinnu haldin rafrænt þetta árið. Hún verður send út í sjónvarpi á Norðurlöndunum í samvinnu við RÚV.

Íslendingar hafa gengt formennsku í Norðurlandaráði árið 2020 og hefur Silja Dögg Gunnarsdóttir gengt embætti forseta Norðurlandaráðs og Oddný Harðardóttir varaforseta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert