Eldflaugarskot N-Kóreu truflaði flug vestanhafs

Frá alþjóðaflugvellinum í Los Angeles.
Frá alþjóðaflugvellinum í Los Angeles. AFP

Flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum stöðvuðu allar brottfarir farþegaþota á nokkrum flugvöllum á vesturströnd landsins í kjölfar þess að eldflaug var skotið á loft frá Norður-Kóreu.

Ákvörðunin var tekin aðeins nokkrum mínútum eftir eldflaugarskotið, um klukkan 14.27 að staðartíma vestanhafs í gær, eða klukkan 22.27 í gærkvöldi að íslenskum tíma.

„Fullur rekstur hófst að nýju eftir minna en fimmtán mínútur,“ segir í yfirlýsingu flugmálayfirvalda, sem geta þess einnig að þau geri reglulega ráðstafanir í varúðarskyni.

Meta viðbrögð

Bandaríkjaher kvaðst ekki hafa skipað fyrir um stöðvunina.

Þegar Jen Psaki, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, var spurð út í atvikið sagði hún flugmálayfirvöld myndu meta hvernig bregðast skyldi við framvegis.

Um var að ræða annað tilraunaskot stjórnvalda í Norður-Kóreu á einni viku, en talið er að eldflaugin hafi verið skammdræg og lent í hafinu austur af Kóreuskaganum eftir um 700 kílómetra flug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert