Með HM-fiðrildi í maganum

Lovísa Thompson nýtist landsliðinu vel enda útsjónarsöm bæði í vörn …
Lovísa Thompson nýtist landsliðinu vel enda útsjónarsöm bæði í vörn og sókn. Ljósmynd/Robert Spasovski

Nú styttist í leikina mikilvægu hjá kvennalandsliðinu í handknattleik. Liðið mætir Slóvenum í tveimur umspilsleikjum um sæti í lokakeppni HM sem fram fer á Spáni í desember.

Ísland hefur einu sinni áður komist á HM en það var í Brasilíu árið 2011 og komst liðið þá í 16 liða úrslit. Kvennalandsliðið braut ísinn þegar það komst á EM 2010 og lék einnig á EM 2012. En síðan þá hefur liðið ekki komist á stórmót. Er ekki kominn tími á að endurtaka leikinn?

„Ó jú. Mig kitlar í magann því mig langar svo mikið að komast aftur á stórmót. Þetta er svo mikil reynsla fyrir utan hvað það er skemmtilegt. Við vorum nálægt því núna ef við horfum á þetta þannig að við erum á leiðinni í úrslitaleiki um sæti á HM.

Þess vegna er afskaplega gott að fá þessar aukaæfingar fram að leik og það vekur hjá manni frekari vonir um að nú geti eitthvað stórt gerst,“ sagði landsliðskonan Lovísa Thompson þegar Morgunblaðið ræddi við hana á landsliðsæfingu í vikunni. Sjálf hefur Lovísa leikið á HM U20 ára landsliða og gerði það árið 2019.

Landsliðshópurinn hefur fengið meiri tíma til að stilla saman strengina en ráð var fyrir gert. Deildakeppnin liggur niðri hér heima og landsliðið fékk undanþágu til að æfa. Liðið æfði fyrir páska og tók aftur upp þráðinn á annan í páskum.

„Við æfðum á skírdag og aftur á annan í páskum. Ég á von á því að við æfum daglega fram til 12. apríl en þá förum við út. Fyrri leikurinn er 17. apríl. Það var geggjað fyrir okkur að fá undanþágu til að æfa. Verkefnið verður skemmtilegra fyrir vikið og við fáum tækifæri til að vinna í stórum þáttum sem við viljum setja inn í okkar leik,“ sagði Lovísa en síðari leikurinn fer fram 21. apríl.

Viðtalið við Lovísu má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert