Glæsilegur sigur hjá Kielce

Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson eru samherjar hjá pólska …
Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson eru samherjar hjá pólska liðinu. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Íslendingaliðið Kielce sýndi heldur betur styrk sinn í Meistaradeild karla í handknattleik í kvöld og vann þýska stórliðið Flensburg með átta marka mun 37:29 í Póllandi. 

Haukur Þrastarson er farinn að láta ljós sitt skína eftir að hafa verið lengi frá vegna hnémeiðsla. Haukur skoraði níu mörk í deildarleik á dögunum og fylgdi því eftir í kvöld með tveimur mörkum gegn Flensburg. Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði eitt mark fyrir Kielce. 

Kielce er með 6 stig í B-riðli keppninnar eftir fjóra leiki og er á toppnum. Barcelona, Veszprém og Portó eru með 4 stig. Athygli vekur að Flensburg er aðeins með 1 stig eftir fjóra leiki. 

Ólafur Guðmundsson var ekki á meðal markaskorara þegar Montpellier vann góðan útisigur á Vardar í Makedóníu 31:25. Montpellier er með 5 stig eins og Vardar eftir fjóra leiki í A-riðlinum. Stigi á eftir Álaborg og Kiel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert