„Það er nóg pláss fyrir okkur öll“

Dagný Bjarnadóttir segir mikilvægt að menn geti haldið áfram að …
Dagný Bjarnadóttir segir mikilvægt að menn geti haldið áfram að ríða á milli hesthúsahverfanna á höfuðborgarsvæðinu og inn á net reiðvega landsins. Hún segir hægt að koma í veg fyrir slys með réttu skipulagi mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er nóg pláss fyrir okkur öll og ekki á að þurfa að koma til árekstra. Margt má laga með réttum ákvörðunum í skipulagi. Fræðsla er mikilvæg til að auka skilning á milli mismunandi hópa,“ segir Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt, formaður reiðveganefndar hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík. Hún ræðir um reiðvegamál og deilur sem komið hafa upp á milli mismunandi útivistarhópa um notkun á reiðvegum og stígum.

Á síðasta ári urðu tíð slys á hestafólki, sum alvarleg, oft á þeim stöðum þar sem umferð ríðandi fólks skarast við aðra umferð eða aðrir vegfarendur nota reiðvegi. Hjá bráðamóttöku Landspítalans voru skráð 160 slys tengd hestum á síðasta ári en talið er að slík slys séu vanskráð, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landssambandi hestamannafélaga (LH). Taka ber fram að þarna er átt við öll slys tengd hestum, slys vegna svokallaðra árekstra við aðra hópa eru aðeins hluti af þeim. Dagný Bjarnadóttir segir að þörf sé á að skrá þau slys betur, hvar og þá hvernig þau verða.

Ástæður slysa má oft rekja til þekkingarskorts, aðrir vegfarendur setji sig ekki í spor hestafólks og öfugt.

Úr þessu er ætlunin að bæta með fræðslustarfi. Ýmis samtök vegfarenda, meðal annars hestamanna og hjólreiðafólks, hafa komist að samkomulagi um að standa saman að fræðslu til almennings um það hvernig mismunandi hópar geta stundað heilbrigða og örugga útiveru í sátt og samlyndi. Sáttmáli þessa efnis var undirritaður um helgina.

Styrkja þarf reiðveganetið

Dagný segir að hestamennskan eins og hún er stunduð hér sé menningararfur sem Íslendingar eigi að styrkja og vera stoltir af. Hún nefnir að þorp hesthúsa sé við hvern þéttbýliskjarna á landinu, til dæmis í öllum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu utan Seltjarnarness. Um sex þúsund séu skráðir í hestamannafélögin á svæðinu en gera megi ráð fyrir að tvöfalt fleiri stundi hestamennsku. Hesthúsahverfin séu tengd með reiðleiðaneti og tengist jafnframt inn á net reiðleiða sem liggur um allt land.

Hún segir mikilvægt að viðhalda og styrkja þetta net. Hestafólk sé háð því að reiðleiðanetið við hesthúsahverfin virki því allir reiðtúrar byrji og endi við hesthúsið. „Því er mikilvægt að við lokumst ekki inni vegna rangra ákvarðana í skipulagsmálum og við hönnun samgöngumannvirkja,“ segir Dagný. Nefnir hún sem dæmi að mikilvægt sé að göng undir Suðurlandsveg verði hönnuð með þarfir hestafólks í huga, þau verði víð og opin þannig að hestafólk veigri sér ekki við að nota þau.

„Það má laga mikið af árekstrum milli hestafólks og annarra vegfarenda með réttu skipulagi. Stundum finnst mér vandinn vera búinn til. Nefna má að hjóla- og reiðleiðir eru lagðar hlið við hlið þótt landsvæðið sé nógu stórt til þess að hægt sé að hafa gott bil á milli,“ segir Dagný.

Segir hún að sérþekkingu á þessu sviði skorti. Segist hún oft hafa orðið vör við það í starfi sínu sem landslagsarkitekt að skilning skorti á því hvernig hestur hegðar sér og hvað beri að varast við skipulag reiðstíga. Ekki sé hægt að sækja þekkinguna til útlanda því aðstæður séu hvergi þær sömu og hér. Þess vegna verði að bæta leiðbeiningar sem hönnuðir geti haft hliðsjón af við vinnu sína.

Allir fái að njóta sín

Dagný tekur undir þau orð að fræðsla sé mikilvæg til að auka skilning á milli mismunandi hópa útivistarfólks og vegfarenda og draga úr hættu á árekstrum. Hún nefnir að nú á tímum kórónuveirufaraldursins stundi mun fleiri útivist en áður og hjólafólki fjölgi. Sumir freistist til að læðast inn á reiðleiðir. Það geti ekki einungis skapað hættu fyrir hestafólk heldur einnig eyðilagt stígana.

„Þetta er lúxusvandamál, við höfum það svo gott að við getum leikið okkur mikið. Það verður að finna þessu farveg. Þörf er á fleiri svæðum þar sem fólk sem stundar hjólasport fær að njóta sín án þess að lenda í árekstrum við ríðandi fólk eða gangandi,“ segir Dagný.

Rannsaka hvernig slysin verða

Dagný Bjarnadóttir og Katrín Halldórsdóttir, starfsmaður Vegagerðarinnar, hafa fengið styrk úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. Verkefnið kalla þær „Samspil ríðandi umferðar og annarra vegfarenda á stígakerfi höfuðborgarsvæðisins“.

Áhersla verkefnisins að er huga að öryggi knapa á reiðleiðum og kortleggja hvar og hvernig hætta skapast af völdum annarrar umferðar, jafnt farartækja sem útivistarhópa. Einnig hyggjast þær skoða útfærslur á innviðum sem geta skapað hættu, svo sem undirgöngum, blindbeygjum, staðsetningu skilta og staura og frágangi á yfirborði. Hafa þær kallað eftir ábendingum frá hestamannafélögum á höfuðborgarsvæðinu. Efnið verður dregið saman í skýrslu sem verður öllum aðgengileg. Vonast Dagný og Katrín til þess að skýrslan geti orðið grunnur að hönnunarleiðbeiningum um útfærslur á reiðleiðum og innviðum þeirra með öryggi knapa í huga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert