Veiran stingur sér niður í herbúðum Evrópumeistaranna

Serge Gnabry í leiknum gegn Íslandi í Duisburg hinn 25. …
Serge Gnabry í leiknum gegn Íslandi í Duisburg hinn 25. mars. AFP

Kórónuveiran hefur stungið sér niður í herbúðum Evrópumeistara Bayern München í knattspyrnu og mun þýski landsliðsmaðurinn Serge Gnabry missa af leiknum gegn París St. Germain annað kvöld. 

Tilkynnt var í dag að Gnabry hefði greinst með veiruna en Marc Roca missir einnig af leiknum vegna meiðsla sem hann varð fyrir á sunnudaginn. Þá er markvarðahrellirinn Robert Lewandowski á sjúkralistanum eins og frá hefur verið greint. 

Bayern og París St. Germain léku til úrslita í keppninni á síðasta tímabili og hafði Bayern betur en liðið vann raunar alla leikina í keppninni. Gnabry var í stóru hlutverki þegar liðið vann keppninna í fyrra og er orðinn mikilvægur hlekkur hjá bæði Bayern og þýska landsliðinu sem vann Ísland á dögunum í undankeppni HM. 

Leikur liðanna á morgun er fyrri viðureignin í 8-liða úrslitum keppninnar. Á sama tíma mætast Porto og Chelsea en í kvöld eigast við Real Madríd og Liverpool annars vegar en hins vegar Manchester City og Dortmund. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert