Dómurinn vonbrigði fyrir MS

Pálmi Vilhjálmsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS).
Pálmi Vilhjálmsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS). Ljósmynd/Aðsend

„Auðvitað eru þetta vonbrigði fyrir okkur. Við áttum von á að Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem taldi að við værum að vinna á réttum málefnalegum grunni og samkvæmt lögum,“ segir Pálmi Vilhjálmsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS). Hæstiréttur staðfesti í gær dóm héraðsdóms og Landsréttar um að Mjólkursamsalan hefði brotið gegn samkeppnislögum í viðskiptum við önnur mjólkursamlög og var fyrirtækinu gert að greiða 480 milljónir króna í stjórnvaldssekt.

Málið hófst í desember 2012 með því að Mjólkurbúið Kú hf. benti Samkeppniseftirlitinu á að Mjólkursamsalan mismunaði viðskiptavinum með því að selja þeim hrámjólk til vinnslu á mismunandi verði. Fyrirtækið taldi að það væri látið kaupa mjólkina á hærra verði en til dæmis mjólkurvinnslufyrirtæki á vegum Kaupfélags Skagfirðinga sem stendur að MS.

Stjórnvaldssekt hækkuð

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að MS hefði brotið samkeppnislög og lagði 370 milljóna króna stjórnvaldssekt á fyrirtækið. MS áfrýjaði málinu til áfrýjunarnefndar um samkeppnismál. Við þá meðferð lagði MS fram framlegðar- og verkaskiptasamning sem gerður hafði verið við Kaupfélag Skagfirðinga á árinu 2008. Áfrýjunarnefndin lagði fyrir Samkeppniseftirlitið að rannsaka málið að nýju. Eftirlitið komst að sömu niðurstöðu um brot MS en hækkaði stjórnvaldssekt í 440 milljónir og bætti við 40 milljóna króna sekt vegna brots MS á upplýsingaskyldu þar sem umræddur samningur hefði ekki verið lagður fram við rannsóknina.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi síðar úrskurð Samkeppniseftirlitsins úr gildi nema hvað sekt vegna brots gegn upplýsingaskyldu var staðfest. Samkeppniseftirlitið vann málið í héraðsdómi og Landsrétti og nú hefur Hæstiréttur staðfest þá niðurstöðu.

Hæstiréttur taldi ekki vafa undirorpið að MS hefði verið í markaðsráðandi stöðu en selt hrámjólk til tengdra aðila á mun lægra verði en ótengdum. Þannig hefði fyrirtækið veikt samkeppnisstöðu keppinauta sinna og með því brotið alvarlega gegn samkeppnislögum. Hæstiréttur staðfesti dóm um stjórnvaldssekt og viðbótarsekt vegna brots fyrirtækisins gegn upplýsingaskyldu, samtals 480 milljónir króna. Við ákvörðun sektarfjárhæðar vísaði Hæstiréttur til þess að brot MS hefði verið alvarlegt og staðið lengi yfir.

Löngu búið að greiða sektina

Spurður um áhrif dóms og sektar á fjárhag Mjólkursamsölunnar bendir Pálmi Vilhjálmsson á að sektin hafi verið greidd á árinu 2018, þegar dómur héraðsdóms var kveðinn upp. Dómurinn hafi ekki áhrif á rekstur félagsins en skerði vissulega eignir þess. Sektargreiðslan muni hvorki leiða til hækkunar á verði mjólkurvara til neytenda né lækkunar á greiðslum til bænda fyrir innlagða mjólk.

Pálmi segir að þegar þetta mál kom upp á sínum tíma hafi verið gerðar breytingar á verðlagningu á mjólk til að koma til móts við sjónarmið samkeppnisyfirvalda. Eftir mitt ár 2016 hafi síðan skipulaginu verið breytt. Auðhumla, sem er samvinnufélag kúabænda utan Skagafjarðar, hafi tekið við kaupum á mjólk frá bændum og Mjólkursamsalan hafi síðan keypt alla sína mjólk þaðan, eins og aðrir sem vinna mjólkurafurðir.

Staðfesti mikilvægi samkeppni

Í yfirlýsingu frá Samkeppniseftirlitinu er haft eftir Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, að dómurinn hafi mikla þýðingu fyrir starfsumhverfi í framleiðslu mjólkurafurða og styrki stöðu bænda og neytenda. „Þannig staðfestir dómurinn mikilvægi samkeppni á mjólkurmarkaði,“ er haft eftir Páli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert