Stór miðnæturskjálfti

Horft að Keili frá höfuðborgarsvæðinu.
Horft að Keili frá höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Hari

Skjálfti af stærð 4,7 reið yfir um klukkan 00:20 í nótt. Upptök skjálftans voru um 2,8 kílómetrum norðaustur af Fagradalsfjalli, eða á nær sama stað og skjálfti sem reið yfir snemma í morgun. Sá var 5,2 að stærð.

Að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofunni, hafa tilkynningar borist um skjálftann víðs vegar af Reykjanesi, höfuðborgarsvæðinu, austan af Hvolsvelli og úr Borgarfirði. Þá fannst skjálftinn einnig í Búðardal og á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Alls voru 2.490 skjálftar á Reykjanesi síðastliðinn sólarhring, þ.e. laugardag. Heldur hafði dregið úr skjálftavirkni þegar leið á daginn en virknin færðist aftur í aukana með kvöldinu.
Nokkrir skjálftar yfir 3 að stærð riðu yfir á laugardagskvöld og hafa upptök þeirra allra verið í næsta nágrenni við Keili.

Skjálftarnir hafa einangrað sig mjög upp á síðkastið eftir að hafa áður verið dreifðari um Reykjanesið, eins og Þóra Björg Andrésdóttir jarðfræðingur sagði í samtali við mbl.is á sunnudag. Það gerir vísindamönnum auðveldara að spá fyrir um möguleg eldsupptök.

Yfir 8.000 skjálftar hafa mælst á Reykjanesi frá því skjálftahrinan hófst á miðvikudag, þar af þrír yfir 5 að stærð og 15 til viðbótar yfir 4 að stærð.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert